Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Árið 2017 var flugvél Landhelgisgæslunnar aðgengileg í 57% tilfella innan sex klukkustunda frá því að útkall kom. Það var sett markmið í fjármálaáætlun ríkisstjórnar um að þetta hlutfall yrði 95%, að í 95% tilfella yrði hægt að ná í flugvélina innan sex klukkustunda. Staðan var hins vegar orðin sú í síðustu fjármálaáætlun að það var gert ráð fyrir því að flugvélin yrði aðgengileg í einungis 25–30% tilvika á þessu ári. Staðan var komin niður í 8,5% árið 2021 þegar markmiðið átti að vera að 95%, rúmlega tífalt meira. Ég velti því fyrir mér, af því að við eigum að vera að skoða hvaða árangri við náum með ríkisfjármálunum, þeim fjárheimildum sem við leggjum í hin og þessi lögbundnu verkefni: Af hverju er búið að fjarlægja þessi markmið og mælikvarða fyrir t.d. bæði skipin og flugvélarnar? Það eru enn þá markmiðin um björgunarþjónustu með þyrlu innan sex klukkustunda allt árið og þar á að vinna upp úr stöðunni 55% aðgengi í 70% á næsta ári og sama 2028 en það vantar þessa mælikvarða um bæði skip og flugvél. Óháð því hvað á að gera þá liggja þau verkefni samt þar undir, hvort sem það verður nákvæmlega með þessari flugvél eða með drónum eða hvað annað sem er hægt að draga upp úr hattinum þá eru þetta samt ákveðin markmið um árangur sem hafa farið niður á við á undanförnum árum, sem er einfaldlega búið strokað út og ég veit ekki af hverju er búið að stroka út. Af hverju er það?