Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:52]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun og ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir sína framsögu og svör hér í dag. Meðal helstu þröskulda í réttarvörslukerfinu er málsmeðferðartími sakamála og ekki síst kynferðisbrotamála. Þessi ríkisstjórn hefur lagt aukna áherslu á jafnrétti í málaflokknum með því að auka öryggi og öryggistilfinningu með bættum rannsóknum í kynferðisbrotamálum, auknum málshraða og öflugri löggæslu. 200 millj. kr. voru lagðar í sérstakt átak til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota og efla forvarnir og þjónustu við þolendur kynferðisbrota í fjárlögum ársins 2022 og í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála. Þetta er í takti við endurnýjaða aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota sem tók gildi nýlega og gildir til 2025. Þessi auknu framlög hafa þegar leitt til þess að stöðugildum hefur verið fjölgað en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti sjö nýjar stöður í kjölfarið af auknum framlögum.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort nú þegar sjáist teikn þess að aukin áhersla stjórnvalda á þennan málaflokk á undanförnum árum, aukin fjárframlög og fjölgun starfsfólks hafi stytt málsmeðferðartíma kynferðisbrota. Og ef ekki, til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa svo ná megi markmiðum aðgerðaáætlunarinnar?