Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:57]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir hans svör og langar að fylgja eftir fyrri ræðu minni og ræða aðeins um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Það er staðreynd að konur eru margfalt líklegri til að verða fórnarlömb þess háttar ofbeldis. Það er einhver skýrasta birtingarmynd kynjamisréttis í nútímasamfélagi og mikilvægt að við beitum okkur af öllu kappi til að sporna við slíku ofbeldi. Það er ógnvænlegt, og enn til að undirstrika það sem ég var að segja hér áðan, að hlutfall þeirra sem tilkynna kynferðisbrot til lögreglu er afar lágt. Á síðasta ári er áætlað að um 19% brota hafi verið tilkynnt til lögreglu. Í áætluninni er að finna tölusett markmið um hækkun þess hlutfalls um 6% á gildistíma áætlunarinnar. Það er verðugt markmið að hlutfall brotaþola sem tilkynna kynferðisbrot hækki en ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort við getum ekki gert miklu betur, ekki síst í ljósi þess að erfitt getur reynst að sakfella gerendur í kynferðisbrotamálum. Ef marka má reynsluna af aukinni áherslu stjórnvalda í þessum málum er ekki fullt tilefni til að gefa enn frekar í?