Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:01]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hér á sér stað, bara fróðlegt og gott fyrir okkur að velta vöngum yfir stöðunni. Mig langar sem þingmaður í Suðurkjördæmi aðeins að velta vöngum yfir löggæslumálum í kjördæminu sem mér finnst þurfa skoðun, annars vegar á Suðurnesjum og síðan á Suðurlandinu sjálfu. Við erum auðvitað með mjög yfirgripsmikla starfsemi hjá lögreglunni í þessu kjördæmi sem þarf að sinna, bæði á Suðurnesjum þar sem er verið er að sinna löggæslu á landamærum, taka á móti fólki, sinna eftirliti, ná utan um alls konar hópa sem eru hugsanlega að koma til landsins og ætla að fara að ástunda iðju sem er ekki ásættanleg; eiturlyfjasmygl, mansal jafnvel og eitt og annað, og á sama tíma erum við líka að sjá allan þann gífurlega fjölda ferðamanna sem er að koma hingað til landsins en stærstur hluti þeirra ekur inn á Suðurlandið og heimsækir ferðamannastaði sem þar eru. Suðurlandið hefur auðvitað mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Maður veltir fyrir sér hvort það sé verið að sinna fjármögnun á þeim verkefnum sem lögreglan, bæði á Suðurnesjum og á Suðurlandi, er að sinna í ljósi þess umfangs sem þar er til staðar.