Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hérna með okkur í kvöld og ræða þessi mikilvægu mál sem heilbrigðismálin eru. Eitt af þeim málum sem ég hef gjarnan látið mig varða og er mér mjög mikið hjartans mál eru fíknisjúkdómar. Það er vitað að að meðaltali deyr einstaklingur ótímabærum dauða í hverri einustu viku af völdum fíknisjúkdóma. Ég veit líka að sá fjöldi dauðsfalla sem raunverulega á sér stað í samfélaginu okkar er ekki einu sinni rétt skráður. Kornungum einstaklingum í blóma lífsins líður af einhverjum ástæðum þannig að þau kjósa að feta þá stigu að fara í fíkn, að neyta efna sem geta dregið þau til dauða og láta sér í raun og veru á sama standa.

Ég velti fyrir mér, frú forseti: Hver er virðingin, hin raunverulega virðing, fyrir þeim mannauði sem felst í þessu unga fólki sem nær því ekki að fá að blómstra með okkur í samfélaginu? Ég velti fyrir mér: Hvernig stendur á því að þegar einstaklingur hefur í raun óskað eftir hjálp að það skuli enn vera um 700 einstaklingar á biðlista eftir því að komast inn á sjúkrahúsið Vog? Ég spyrja hæstv. ráðherra fyrst ljósið er farið að blikka hjá mér og mér finnst ég varla vera byrjuð: Hvað er verið að gera í heilbrigðiskerfinu í dag til að taka utan um þann gífurlega vanda, og vöxt í þessum vanda, sem blasir við okkur öllum? Hvað er hæstv. heilbrigðisráðherra að gera? Megum við eiga von á því að sjá einhverjar breytingar til batnaðar í þessum efnum?