Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég er meira á þeirri línu núna hvað sé til ráða þegar einstaklingurinn er kominn á þann stað að hann hefur bugast, burt séð frá allri annarri hjálp sem felst í skaðaminnkun og neyslurýmum; hann hefur bugast og hann er raunverulega að biðja um hjálp. Hann er að biðja um að fá að komast í meðferð, að fá að afeitrast. Hann er að biðja um að fá að gerast virkur úti í samfélaginu, að fá að nýta sig sem manneskju til að taka þátt í samfélaginu með okkur hinum. Hvað er verið að gera fyrir þetta fólk og hvernig er það boðlegt að 700 slíkir einstaklingar skuli vera að bíða við þröskuldinn á Vogi, sem er sjúkrahús, eftir því að fá nauðsynlega læknishjálp?

Það er aftur önnur saga með þau úrræði sem eru í eftirfylgni eftir meðferð og síðan virðist bara nánast lítið sem ekkert taka við eftir að þeirri meðferð er lokið. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það sé eitthvað í kortunum að líta til landa þar sem slík meðferðarúrræði hafa verið mun öflugri, kröftugri, þar sem einstaklingurinn hefur jafnvel fengið ákveðna fjölskyldumeðferð, þar sem heilu þorpin eru hreinlega byggð utan um fólk sem er í þessum vanda og þráir ekkert annað en að fá að taka þátt í samfélaginu. Hvers lags samtal er á milli allra þeirra sem vilja, og eru virkilega að vinna við það, reyna að koma fólkinu okkar til hjálpar, til bjargar, og reyna að virkja þann mannauð sem við eigum í þúsundum Íslendinga.

Þessi sjúkdómur spyr hvorki um stétt né stöðu. Þetta er sjúkdómur sem margir hafa verið með fordóma gagnvart. Þetta er sjúkdómur sem fæstir skilja til hlítar nema þeir sem raunverulega hafa lent á gálga hans og hafa þurft að berjast við hann og glíma við hann. Hæstv. ráðherra, hvað er (Forseti hringir.) raunverulega verið að gera til að koma fólki í meðferð, sem biður um þessa hjálp, og til eyða þessum biðlistum?