Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni við upphaf 1. umr., með leyfi forseta:

„Í áætluninni felast skýr markmið: Í fyrsta lagi að styðja við Seðlabankann í því verkefni að tempra verðbólgu.“

Heyr, heyr! Ef ég vissi ekki betur, það liggur nú við að maður bresti í hlátur, þá væri þetta virkilega fallegt markmið. En eftir að verðbólgan fór yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands hefur peningamagn í umferð, sem sagt á síðastliðnum tveimur árum, aukist um hvorki meira né minna en 22%. Ég endurtek: Peningamagn í umferð, eftir að verðbólgan fór yfir efri vikmörk Seðlabanka Íslands, hefur aukist um 22%. Og í boði hverra? Dettur einhverjum í hug að hæstv. fjármálaráðherra, og hæstv. ríkisstjórn, sé algjörlega heillum horfinn og verklaus með öllu og það eigi bara ekki að gera nokkurn skapaðan hlut? Auðvitað dettur okkur það ekki í hug. En staðreyndin er engu að síður nákvæmlega sú.

Það skiptir engu máli hversu hátt er hrópað úr Svörtuloftum á aðstoð við að reyna að kveða niður þennan verðbólgudraug, það er akkúrat ekkert verið að gera í stöðunni. Sem sagt: Í boði hvers er þetta? Að stórum hluta getum við skrifað þá þróun sem er hér innan lands, í okurvöxtum og brjálæðislegri verðbólgu, beinustu leið á stjórnvöld. Við erum að sjá það í löndunum í kringum okkur hvernig þjóðirnar takast á mismunandi hátt við það krefjandi verkefni að kveða niður verðbólguna. Á Spáni lækkaði verðbólgan t.d. um heil tvö prósentustig á milli mánaðanna febrúar og mars — hvernig fóru þeir að því? Hefur spænska ríkisstjórnin einhvern tímann ráðist af afli á samfélagið með krónutöluhækkunum og komið sjálf með þenslu inn í efnahagskerfið? Að sjálfsögðu ekki, aldrei nokkurn tímann. Þeir drógu hins vegar úr öllum álögum. Þeir pössuðu sig á að hækka ekki neitt um eina einustu krónu. Þeir stilltu frekar fólkið. Þeir lækkuðu bensínið á meðan við hækkuðum hvern einasta lítra um 9 kr., bara af því að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnina vantaði fleiri krónur í kassann. Hvert eru þessar krónur alltaf sóttar? Eru þær sóttar í stórútgerðina? Eru þær sóttar í bankana, hirslurnar sem eru gjörsamlega að mergsjúga samfélagið með þessum viðbjóðslegu okurvöxtum og verðtryggingu og verðbólgu? Í boði hverra er það? Ríkisstjórnarinnar auðvitað. Hefur ríkisstjórnin eitthvað gert í því að afnema t.d. verðtryggingu? Hefur ríkisstjórnin á þessu tímabili einhvern tíma látið sér detta í hug að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni sem hefði slegið á þenslu verðbólgunnar á þeim tíma um heil 2,8 prósentustig? Nei, það hvarflar ekki að þeim vegna þess að þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn sérhagsmunaaflanna. Hún mun ekki höggva í fullar hirslur af peningum hjá auðmagninu í landinu. Hún mokar meiri peningum undir þá. Hún færir þeim heilu peningahlössin á silfurbökkum á meðan þjóðinni blæðir. Svo kemur hér hver silkihúfan upp af annarri í gegnum umræðuna og er að tala um það hvað kaupmátturinn sé frábær hér, að fólk þurfi ekki að vera í neinum vandræðum með íbúðalánin sín. Hverjum í ósköpunum dettur það í hug — í rúmlega 9% vöxtum og hátt í 10% verðbólgu og nú er verið að endurskoða föstu vextina hjá fólki og akkúrat núna eru þessi óverðtryggðu lán með föstu vöxtunum að detta inn og greiðslubyrðin mun tvöfaldast og jafnvel þrefaldast á lánum fólks — að hinn venjulegi millitekjumaður ráði við þetta? Eða lágtekjueinstaklingurinn sem hefur barist í bökkum við að reyna að komast í gegnum greiðslumat á einhverjum tímapunkti til að eignast þak yfir höfuðið — hvernig eiga þessir einstaklingar að standa undir þessu? Þeir munu ekki geta það, þeir munu engan veginn geta það.

Það var 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn var að hefja innreið sína hér á landi sem ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, þá tvö í þingflokki Flokks fólksins, komum hér skipti eftir skipti í æðsta ræðustól landsins til þess að ræða það við hæstv. fjármálaráðherra og jafnvel hæstv. forsætisráðherra líka hvað ætti að gera til að byrgja brunninn áður en barnið dytti ofan í hann. Við sáum hilla undir verðbólgu, það var verðbólga og aftur verðbólga handan við hornið. Þegar við byrjuðum að ræða þetta var verðbólgan í 2,1%. Var eitthvað gert með það? Nei, það má aldrei vera með hagsýni og horfa fram í tímann og byrgja brunninn, við þurfum fyrst að detta ofan í hann. Ég veit ekki hvort það er eitthvað til þess að státa sig af hvernig farið var með samfélagið í efnahagshruninu 2008 þegar 12–15.000 fjölskyldur misstu heimili sín. Er það þangað sem við erum að stefna í dag?

Fjármálaáætlunin sem hér er til umræðu er núll og nix. Hún kemur í engu til móts við þá örbirgð sem nú er fyrir augum í samfélaginu, í engu. Ekki nóg með það. Ég sat fjárlaganefndarfund í gærmorgun, sællar minningar, og mér leið alveg eins og ég veit ekki hvað. Það er meira að segja talað um jafnvægi í rekstri sveitarfélaga. Hvað er það? Er verið að bera fölsk gögn á borð fyrir okkur, einhver eldgömul gögn sem eru löngu úrelt? Við erum að horfa á það hér að hér eru sveitarfélög við það að verða gjaldþrota, ekki bara Árborg, ekki bara Reykjavík. Það er farið að halla undan fæti í Garðabæ og víðs vegar úti um landið. Og hvers vegna? Hvað gerir ríkisstjórnin í því? Jú, hún hrúgar verkefnum á sveitarfélögin. Það er allt í lagi að hrúga verkefnum á sveitarfélögin en að fjármagn fylgi þeim skuldbindingum sem þeim er ætlað að taka á sig — nei, það er hins vegar af skornum skammti.

Nú held ég áfram, ég missti mig aðeins í fyrsta lið hjá hæstv. fjármálaráðherra. Í öðru lagi segir hann í þessari ræðu sinni, sem var líka verulega athyglisvert:

„Í öðru lagi að verja árangur síðustu ára við að byggja upp framúrskarandi lífskjör og kaupmátt.“

Ég segi fyrir mig: Gjáin á milli þeirra ríku og fátæku er einungis að breikka. Hún er einungis að dýpka. Á sama tíma hefur karfan úti í búð hækkað á bilinu 15–100%, eða ég veit ekki hvað, það fer eftir því hversu gráðugir þeir eru í að verðleggja vöruna sína núna — í mörgum tilvikum er því miður verið að nýta sér þetta ömurlega ástand og hækka aðföngin mun meira en efni standa til miðað við þá verðbólgu sem er í gangi. En talandi um kaupmátt og monta sig af því — hugsið ykkur. Ríkisstjórnin segir: Við erum búin að bæta í barnabæturnar. Við erum búin að bæta í húsnæðisstuðninginn, við komum hingað með 3,5% í almannatryggingarnar í fyrrasumar. En á sama tíma, nú síðustu sex árin, hefur fátækt íslenskra barna vaxið um heil 44% í boði þessarar ríkisstjórnar. Hvernig getur nokkur einasti kjörinn fulltrúi staðið hér í þessum ræðustóli og reynt að telja fátæku fólki trú um að það hafi það gott og hér drjúpi smjör af hverju strái? Það eru hrein ósannindi fyrir þann hluta samfélagsins sem er skilinn eftir í mekki. Ég hef skömm á stjórnvöldum sem geta ekki axlað ábyrgð og sem geta ekki viðurkennt að þeim hefur mistekist. Þeim hefur gjörsamlega mistekist að standa vörð um samfélagið eins og þeim ber skylda til að gera. Það er þeirra að verja samfélagið þeim ágjöfum sem við erum að takast á við núna. Það er ekki seðlabankastjóra að hækka stýrivexti tólf sinnum í röð af því að það er enginn hér í brúnni með honum til að axla ábyrgð.

Frú forseti. Ég er ekki einu sinni búin með einn tíunda af ræðunni. Ég hefði þurft tíu tíma í viðbót en ég læt gott heita. Ég gef þessari fjármálaáætlun sem sagt 0,0.