Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

ríkislögmaður.

942. mál
[21:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir stuttu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ríkislögmann. Þetta frumvarp var samið í samráði við vinnuhóp sem ég skipaði í ágúst 2022 með fulltrúum embættis ríkislögmanns, dómsmálaráðuneytisins, Lögmannafélags Íslands, Dómarafélags Íslands og Félags forstöðumanna ríkisstofnana auk forsætisráðuneytisins. Forsaga málsins er sú að í tengslum við fjárlagavinnu forsætisráðuneytisins vegna fjárlaga fyrir árið 2022 fékk ég ráðgjafa til að rýna starfsemi og skipulag embættis ríkislögmanns, greina styrkleika og veikleika embættisins og nota þann grunn til að ákveða næstu skref. Niðurstaða þeirrar stefnumótunarvinnu var að rétt væri að endurskoða lög um ríkislögmann í því skyni að skýra frekar hlutverk embættis ríkislögmanns og með frumvarpi þessu eru í samræmi við það lagðar til breytingar á lögum um embættið hvað varðar hlutverk þess. En það voru fleiri tillögur sem fram komu í stefnumótunarvinnunni, einkum mikilvægi þess að efla sáttamiðlun sem grundvallarþátt í starfsemi embættisins, sem er til þess fallið að leiða til minna álags innan embættisins, og að móta viðmið um fyrirsvar þess við rekstur dómsmála enda eru slík viðmið til þess fallin að efla og bæta fyrirsvar embættisins. Þá var það tekið til skoðunar að fella inn í lögin ákvæði sem gæti hljóðað eitthvað á þá leið að ríkislögmaður skuli almennt ekki hefja sókn í einkamáli sem ríkið höfðar nema áður hafi verið leitað annarra leiða til að leysa þann ágreining sem uppi er, svo sem með sáttaumleitan. Þá var einnig skoðað hvort mæla ætti fyrir um skyldu á starfsemi embættisins að það gætti að samkvæmni og sanngirni gagnvart gagnaðilum ríkisins við rekstur dómsmála fyrir ríkið.

Þegar þessar hugmyndir voru teknar til skoðunar af hálfu ráðuneytisins og skoðaðar í samhengi við álit vinnuhópsins varð niðurstaðan sú að slík atriði ættu betur heima í verklagsreglum embættisins en ekki í lagatexta. Er það t.d. í samræmi við það fyrirkomulag sem Norðmenn, sem hafa lagt mikla áherslu á slíka sáttamiðlun við meðferð mála, hafa viðhaft og þangað er fyrirmyndin að hinni íslenska löggjöf sótt og hið sama gildir um almenn viðmið um rekstur dómsmála fyrir ríkið.

Í frumvarpinu er lagt til að upptalning þeirra verkefna sem ríkislögmanni eru falin í lögum verði gerð skýrari og þau sett í stafliði. Jafnframt er lagt til að tiltekið sé að ríkislögmaður fari með mál fyrir íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og fyrir EFTA-dómstólnum. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða enda sinnir ríkislögmaður nú þegar slíkum málum og mál sem eru rekin fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu eru vaxandi þáttur í starfsemi embættisins. Hins vegar þótti eðlilegt í ljósi einmitt þess að þessi málarekstur er vaxandi þáttur í starfsemi embættisins að þess sé skýrlega getið í lagatexta að þetta sé hluti þeirra verkefna sem embættið sinnir. Ég vil hins vegar árétta í þessu sambandi að þótt ríkislögmanni sé falið að sinna tilteknum verkefnum samkvæmt lögunum fara auðvitað ráðherrar og eftir atvikum þær ríkisstofnanir sem undir það heyra með forræði á kröfugerð, röksemdum og ágreiningsatriðum í þeim málum sem ríkislögmaður sinnir.

Frú forseti. Þetta er nú allt og sumt í þessari framsögu um þetta stutta frumvarp. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum þess og tel raunar að frekari orð skýri það ekkert frekar. Ég hygg að þetta frumvarp sé þess eðlis að um það geti skapast góð samstaða hér á þingi og legg að lokum til að að lokinni þessari 1. umr. verði því vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.