Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

[22:05]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Í 8. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa segir, með leyfi forseta:

„Ef samning frumvarps hefur gefið tilefni til að meta hvort það samrýmist stjórnarskrá eða alþjóðlegum skuldbindingum skal þess getið í greinargerð.“

Á dagskrá þessa fundar er frumvarp matvælaráðherra um breytingar á lögum um veiðar í landhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu). Með frumvarpinu er lagt til að kvótasetja grásleppu, aðgerð sem óumdeilt varðar atvinnufrelsi sem er stjórnarskrárvarið samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Miðað við fyrrgreinda samþykkt um frágang stjórnarfrumvarpa þarf að fylgja frumvarpinu mat á samræmi þess við stjórnarskrá. Í 4. kafla greinargerðar þessa umrædda frumvarps er að finna slíkt mat nema hvað að hvergi er þar fjallað um hvort lagasetningin uppfylli skilyrði 75. gr. stjórnarskrárinnar, um að aðeins megi setja atvinnufrelsinu skorður ef það varðar almannahagsmuni.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpið verði tekið af dagskrá þar til það hefur verið lagfært. Ég tel að undirbúningi frumvarpsins sé mjög áfátt og sérstaklega hvað varðar stjórnarskrárþáttinn. Ég vil minna á það, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að við sórum öll eið að stjórnarskránni og við eigum þess vegna að vanda okkur þegar til álita koma mál sem hana varða.

(Forseti (DME): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutímann.)