Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[22:07]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eða vinnuverndarlögunum eins og lögin eru oftast nefnd í daglegu tali, en breytingarnar snúa að vinnutímaskráningu starfsfólks. Frumvarpið er fyrst og fremst lagt fram til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að hérlendis hafi ekki verið innleidd að fullu 3. og 5. gr. sem og b-liður 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma eins og ákvæðin hafa verið túlkuð í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C55/18 CCOO.

Að mati EFTA hafi dómstóllinn í því máli komist að þeirri niðurstöðu að umrædd ákvæði tilskipunarinnar fælu í sér að atvinnurekendur í aðildarríkjum þyrftu að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsfólks síns. Í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA til íslenskra stjórnvalda kemur enn fremur fram að í samræmi við grunnmarkmið um einsleitni í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og til að tryggja jafnræði innan svæðisins sé framangreind niðurstaða dómstólsins jafnframt skuldbindandi innan svæðisins.

Í ljósi athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA er með frumvarpinu lagt til að nýju ákvæði verði bætt við vinnuverndarlögin þar sem kveðið verði á um það nýmæli að atvinnurekendum sé skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna sem innihaldi m.a. upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Jafnframt er gert ráð fyrir í frumvarpinu að starfsfólk eigi þess kost að nálgast umræddar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann.

Tilgangur slíkrar skráningar er að Vinnueftirlit ríkisins, sem fer með eftirlit með vinnutíma starfsfólks á grundvelli vinnuverndarlaganna, eða eftir atvikum dómstólar geti metið hvort skilyrði laganna um hámarksvinnutíma, lágmarkshvíld og vikulegan frídag séu virt sem og hvort starfsfólk hafi fengið hvíld síðar ef vikið er frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögunum eða kjarasamningum. Í þessu sambandi þykir mikilvægt að atvinnurekendur hafi umræddar upplýsingar tiltækar ef upp kemur grunur um brot á ákvæðum laganna. Gera má ráð fyrir því að verði frumvarpið að lögum auðveldi það eftirlit stjórnvalda frá því sem nú er hvað varðar eftirlit með vinnutíma starfsfólks.

Virðulegi forseti. Ég tel afar mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt hér á Alþingi til hagsbóta fyrir starfsfólk á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og staðið er við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.