Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[22:14]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt í meðförum nefndarinnar og þegar þetta mál verður skoðað nánar að horfa einmitt til þess að vera ekki að leggja þessa kröfu á öll fyrirtæki, horfa fyrst á meginþorrann eða þá skoða þann hóp fyrirtækja þar sem mesta áhættan er hvað þetta varðar. En að setja svona auknar kröfur á smáfyrirtæki, ég held að menn verði að skoða þann þátt. Þau eru meira og minna í því að innheimta jafnvel hin og þessi gjöld; tryggingagjöld, meðlög jafnvel, skila sköttum, lífeyrisgreiðslum, greiðslum til verkalýðsfélaga og hingað og þangað. Þegar smáfyrirtæki tína þetta saman þá tekur þetta bara tíma. Ég held að menn eigi einmitt frekar að skoða þessa löggjöf aðeins upp á nýtt og horfa á það hvað er verið að gera. Það er greinilegt að það er ekki alveg klárt hvað menn ætla að gera, hvernig tölvuskráningin eigi að fara fram og allt það. Ég vil aðeins minna á að það er nýbúið að fara leið sem átti að auðvelda smáfyrirtækjum að fá starfsleyfi. Það átti að fá skráningu í staðinn. En þegar á hólminn var komið og búið að setja það í gegnum einhverja miðlæga gátt hjá Ísland.is þá var það bara meiri háttar vinna fyrir smáfyrirtæki, fyrir hárgreiðslustofu, að skrá sig. Þannig að ég segi það og það eru mín skilaboð inn í þessa umræðu að vera ekkert að flýta sér um of, horfa með velþóknun til smáfyrirtækjanna og líta til þess miklu frekar að gera þeim þessa skráningu auðvelda og vera ekki að bæta á einhverjar kröfur sem væri mögulega hægt að komast hjá.