Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

óviðunandi íbúðarhúsnæði.

[15:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég hugsa að ég tali fyrir munn margra þegar ég lýsi því yfir að ég varð fyrir sjokki þegar ég horfði á Kveik í gærkvöldi. Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér, þegar maður sér fólk búa í mygluðum kolakjallara með tvö börn, hvort við eigum ekki líka eitthvað af kartöflugeymslum og manngerðum hellum og einhverju slíku sem einhverjir búa í án þess að við vitum af því.

Fyrir þremur árum varð hörmulegt slys þegar kviknaði í húsi sem búið var að troða allt of mörgu fólki í, á Bræðraborgarstíg, og þrjú ungmenni dóu þar. Maður er eiginlega með grátstafinn í kverkunum. Nú hefur Framsóknarflokkurinn, flokkur hæstv. innviðaráðherra, verið með þessi húsnæðismál meira og minna frá lýðveldisstofnun. Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig hæstv. ráðherra hafi orðið við — það væri kannski réttara að spyrja fyrst hvort hæstv. ráðherra hafi séð þær hörmungar sem voru sannarlega bornar á borð fyrir okkur í Kveik í gærkvöldi. Maður veltir líka fyrir sér: Hvernig stendur á því að það þarf fjölmiðla til að draga fram þann óþverra sem sjálfsagt þúsundir búa við í dag án þess að ríkisvaldið skipti sér nokkurn skapaðan hlut af því?

Hvað er um að vera, hæstv. ráðherra? Hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að grípa inn í þetta strax, það eru þrjú ár síðan það brann á Bræðraborgarstíg, eins og ég nefndi? Eða á kannski að skipa stýrihóp eða setja málið í nefnd eða bíða þangað til næsta kjörtímabil gengur í garð?