Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

óviðunandi íbúðarhúsnæði.

[15:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég hefði mátt segja mér að hæstv. ráðherra fylgist með og veit hvað klukkan slær. En þrátt fyrir það að staðan sé eins og raun ber vitni þá verðum við líka að horfast í augu við það að ríkisvaldið og sveitarfélögin eru í raun búin að ýta í gang einhverju algerlega óútskýranlegu ferli á húsnæðismarkaðnum; græðgin og hryllingurinn sem þar er í gangi, okurleigan o.s.frv., það er eiginlega ekki hægt að tala um það. Og að það skuli vera í samkeppni við ríki og sveitarfélög sem keyra þetta upp er enn sorglegra. Það er frábært að þetta skuli vera komið inn í samráðsgátt, það er frábært að slökkviliðið skuli fá frekari heimildir. Við sáum það í þættinum í gær að dómstólar vísuðu því máli meira að segja frá; það snerti annað hús sem var sýnt í þessum þætti sem búið var að troða tæplega 30 einstaklingum inn í. Það virðist vera takmarkalaust hvað er hægt að hólfa niður (Forseti hringir.) kytrur til að búa til stæði fyrir rúm og lítinn ísskáp og örbylgjuofn undir súð og (Forseti hringir.) hvar annars staðar sem er í einhverjum örlitlum skúmaskotum.

Ég segi við hæstv. ráðherra: Verðum við ekki að gera eitthvað alveg undir eins, bara núna?