Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:20]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo lítill tími. Forsendan var auðvitað sú þegar við gengum inn í EES-samstarfið að samningurinn virkaði. Einsleitni var forsendan. Hann þurfti að virka fyrir borgarana, hann þurfti að virka fyrir fyrirtækin. Og hefur 102. gr. verið tekin úr sambandi? Er okkur ekki frjálst, eftir sem áður og hingað til, að ganga út úr þessu samstarfi hvenær sem er ef okkur hugnast svo? Hefur það eitthvað breyst? Ég viðurkenni það að ég hef verið hér í þessum þingsal margsinnis og hlustað á hv. þingmann og ég hef velt því fyrir mér — ég hef ekki skilið það sem svo að hv. þingmaður sé sérstakur aðdáandi, a.m.k. ekki einlægur aðdáandi, EES-samstarfsins — nú þegar samningurinn hefur þróast eins og hv. þingmaður bendir á, blásið út, segir hv. þingmaður, hver er afstaða hv. þingmanns í dag til veru og aðildar Íslands að EES-samningnum og EES-samstarfinu? Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir: Tökum okkur tíma, ræðum þetta mál. Endilega, en gætum okkur á því í okkar málflutningi að við leggjum ekki þeim lið sem hafa hér áratugum saman reynt að grafa undan EES-samningnum, vitandi að það sem býður okkar er ekkert annað heldur en Evrópusambandið með útbreiddan faðminn.