Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:54]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í hártoganir við hv. þingmann um það hvert og hversu veigamikið hlutverk Sjálfstæðisflokksins hefur verið og var á sínum tíma við það að koma okkur inn í EES-samstarfið og verja það allar götur síðan; flokkur sem hafði á þeim tíma um 40% fylgi og 40% fulltrúa hér á þinginu á meðan Alþýðuflokkurinn hafði 15%. Eins og hv. þingmaður nefnir þá hélt og sat hv. fyrrverandi þingmaður Jón Baldvin á utanríkisráðherrastólnum. Hins vegar hélt Sjálfstæðisflokkurinn á forsætisráðherrastólnum og hv. þingmaður vill væntanlega ekki gera lítið úr hlutverki þingsins við meðferð þessa máls, hvar Sjálfstæðismaðurinn Björn Bjarnason var formaður utanríkismálanefndar og Sjálfstæðisflokkurinn hafði fjóra af fimm fulltrúum í meiri hluta utanríkismálanefndar sem stuðlaði auðvitað að því að greiða götu samningsins í gegnum þingið.

En að öðru. Það er alltaf gaman, eða a.m.k. yfirleitt, að hlusta á hv. þingmann fara svona vítt og breitt yfir málin og mig langar til þess að vera svolítið á sömu nótum og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson sem benti á að hættan væri sú að þegar við værum að ræða þessi mál færum við að ræða eitthvað allt annað því að svo margt kæmi inn í. Því langaði mig að spyrja hv. þingmann beint út hver afstaða hans væri til þess þingmáls sem við ræðum hér í dag, hvort ég hafi skilið hann rétt sem svo að hann væri jákvæður í garð tillögu hæstv. utanríkisráðherra til lausnar á þessu máli.