Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:57]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir ræðuna. Það var víða komið við og mig langar að bregðast við fáeinum hlutum. Fyrir það fyrsta, þá finnst mér mjög til eftirbreytni hvaða afstöðu íslensk stjórnvöld hafa tekið gagnvart því að hleypa hingað kjarnorkuknúnum kafbátum til að undirstrika það að við stöndum auðvitað með vörnum landsins. Ég er mjög jákvæður gagnvart því þótt ég sé mjög ósáttur við það hvernig þessi sama ríkisstjórn stóð að því að afgreiða þjóðaröryggisstefnu sem ég dauðsé eftir að hafa greitt atkvæði mitt. Hún var auðvitað engan veginn nógu öflug, en þetta sýnir okkur þó a.m.k. að við ætlum að taka þátt í vörnum landsins og styðja við bakið á þjóð sem nú er ráðist á.

Síðan er mikið talað um ETS og flugið. Það finnst mér áhugavert dæmi um það — eins og hv. þingmaður var að benda á þá hefur hagsmunagæslan verið mikil í því máli með óteljandi fundum — að eyríki inni í Evrópusambandinu gátu komið sínum sjónarmiðum beint á framfæri með því að vera í Evrópusambandinu og tillit var tekið til þeirra. Mér finnst því mjög gott að taka það dæmi um ýmsa kosti sem gætu fylgt því að sitja einmitt við þetta margumtalaða borð og hafa þá einhver raunveruleg áhrif, frekar en að reyna að semja um hlutina eftir á.

Þar undir er síðan auðvitað ferðaþjónustan, sem er ofsalega gott dæmi um atvinnugrein sem er jafn sterk og öflug og það starfsfólk sem við höfum í hana. Evrópska efnahagssvæðið og EES-samningurinn er auðvitað grundvöllur þess að hingað koma tugþúsundir einstaklinga hindrunarlaust frá Evrópu til þess m.a. að vinna í íslenskri ferðaþjónustu. Það er eitt dæmi um gagnsemina og ég tek svo sem alveg undir það að ágætt getur verið að vita hvað kostnaðurinn er mikill við að taka þátt í þessu samstarfi, (Forseti hringir.) en ég er ansi hræddur um að ekki sé hægt að ná utan um þá hundruð milljarða sem hafa fylgt í ávinningi.

(Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann: Við höfum fylgst með því hvað hefur gerst hjá Bretum þegar þeir gengu út úr Evrópusambandinu. Þar eru tónlistarmenn mjög mikið að kvarta undan því að þeir (Forseti hringir.) eigi erfitt með að fara í tónleikaferð um Evrópu. Það er talsvert meira vesen fyrir þá að gera það núna eftir að þeir misstu þennan beinan aðgang. Það er kostur sem fylgir Evrópska efnahagssvæðinu, ekki satt?