Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:08]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S):

Virðulegi forseti. Það er fullt tilefni til að koma hérna upp og taka þátt í þessari umræðu og taka undir ræðu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli, og jafnvel víkja að sumu sem kom fram í ræðu hv. 8. þm. Norðvest., Bergþórs Ólasonar. (Gripið fram í.)Tilefni er til að árétta nokkur atriði varðandi allt málið. Bókun 35 framselur ekki lagasetningarvald. Frumvarpið er til þess að skýra núverandi framkvæmd laga, framkvæmd sem á sér 30 ára sögu. Það er rétt að taka fram að bókun 35 hefur engin áhrif á stöðu EES-reglna gagnvart stjórnarskránni. Frumvarpið snýst fyrst og fremst um samspil milli tveggja eða fleiri innlendra laga, laga sem Alþingi setur. Ef þau skarast, eins og getur gerst og mörg dæmi eru um þrátt fyrir vilja og ásetning Alþingis um að vanda til verka, þá er verið að skýra forganginn þar á milli; annars vegar að ef lög eiga rætur til EES-samningsins og hins vegar ef lög gera það ekki þá njóti þau lög sem eiga rætur til EES-samningsins forgangs. Svona hefur þetta verið í þrjá áratugi.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA bað íslensk stjórnvöld árið 2012 að skýra hvernig þau stæðu við skuldbindingar sínar gagnvart bókun 35. Árið 2017 fann ESA að því í áminningarbréfi að ekki hafi verið skýrt hvernig staðið var að innleiðingu bókunarinnar. Ef við gerum ekkert gæti staðan versnað og málið snúist okkur í óhag. Við erum því að taka forræði á málinu, við erum að taka frumkvæði og ákveða sjálf hvernig málið liggur frekar en að fá á okkur úrskurð og standa í átökum og jafnvel dómsmálum. Það hlýtur að vera vilji þeirra sem hafa mestar áhyggjur af fullveldinu, dags og nætur, að við ákveðum sjálf hvernig við skýrum framkvæmdina. Þess vegna er tilefni til að taka fram að hendur Alþingis eru ekki bundnar með neinum hætti þótt frumvarpið verði að lögum, þvert á fullyrðingar um annað.

Það skiptir máli að hafa í huga að ákvæði frumvarpsins segir berum orðum að löggjöf sem á uppruna sinn í EES gangi aðeins framar landsrétti svo lengi sem Alþingi hafi ekki mælt fyrir um annað. Þetta þýðir að Alþingi getur hvenær sem er tekið fram að lagafrumvörp sem eru ekki innleiddur réttur og eru samþykkt á Alþingi gangi framar innleiddum EES-rétti sem Alþingi hefur þegar samþykkt. Ákvæðið er því aðeins forgangsregla svo lengi sem Alþingi ákveður að tiltaka ekki annað. Það er ekki verið að tryggja forgang til framtíðar.

Það er mikilvægt að ítreka enn og aftur að forgangsregla bókunar 35 tekur aðeins til EES-reglna sem hafa verið innleiddar, þ.e. EES-reglna sem þegar eru orðnar hluti af íslenskum rétti. Bókun 35 breytir engu um löggjafarhlutverk Alþingis samkvæmt stjórnarskrá og bókunin kveður aðeins á um skyldu til að tryggja forgang með almennum lögum. Það er ekki verið að teppaleggja íslenskan rétt og það er ekki verið að láta Evrópuréttinn yfirgnæfa íslenskan rétt. Málið snýst ekki um það, eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra.

Það var gott að heyra hv. 8. þm. Norðvest., Bergþór Ólason, lýsa því yfir að hann styðji EES-samninginn. Það hefur ekki alltaf verið ljóst af málflutningi flokksbræðra hans og skoðanabræðra. Sá sem hér stendur styður ekki inngöngu Íslands í ESB, alls ekki, en ég tel að EES-samningurinn sé einn mikilvægasti samningur sem Ísland hefur gert, enda liggur þar grundvöllurinn að samstarfi við Evrópu í viðskiptum, umhverfismálum, menningu, rannsóknum, menntun, samkeppni og neytendavernd. Þannig hafa íslensk fyrirtæki nánast hindrunarlaust getað starfað á innri markaðinum, íslenskir fræðimenn og vísindamenn haft tækifæri til samstarfs og Íslendingar getað starfað og stundað nám á sömu kjörum og heimamenn. Þessir hagsmunir eru og verða Íslendingum gríðarlega mikilvægir. Það liggur fyrir að EES-samningurinn hefur reynst ein mesta kjarabót íslensks almennings frá því að Ísland varð lýðveldi. Það liggur fyrir að EES-samningnum hefur fylgt meira frelsi í viðskiptum heldur en þekkst hefur frá því áður en Ísland varð lýðveldi. Það er m.a. þess vegna sem ég vil vernda þennan samning, því að það gagnast hagsmunum lands og þjóðar best.

Svo verð ég aðeins að víkja að því hvernig umræðan um þetta mál og önnur sem snúa að alþjóðlegu samstarfi hefur verið í fjölmiðlum og í þingsal, í ræðu vinar míns hv. 8. þm. Norðvest., Bergþórs Ólasonar. Er ekki bara hreinlega kominn tími til þess að Miðflokkurinn breyti merki sínu, taki út íslenska hestinn og setji inn minni úr bókmenntasögunni; fyrst úlf og svo jafnvel annan úlf? Þannig hefur þráðurinn verið í málflutningi Miðflokksins í málum er varða alþjóðastarf og frelsi síðan hann var stofnaður.