Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:15]
Horfa

Ástrós Rut Sigurðardóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um breytingar á lögum um EES-samninginn sem varðar svonefnda bókun 35. Ég fagna því sérstaklega að málið sé fram komið. Aðdragandinn hefur verið langur og það er gott að sjá að vandað hefur verið til verka. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er langumfangsmesti og mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem við höfum gerst aðilar að. Með tilkomu hans var Evrópumarkaður opnaður fyrir Íslendingum. Íslensk fyrirtæki fengu greiðari aðgang að 500 milljóna manna svæði og við fengum aukið frelsi til að ferðast um álfuna vegna náms og atvinnu. Í gegnum þetta samstarf höfum við líka notið sérstakra umbóta í neytendavernd, umhverfisvernd og mannréttindum. Evrópa leiðir baráttuna fyrir framförum á öllum þessum sviðum.

Frá árinu 2017 hefur farið fram vinna við að tryggja það að við uppfyllum skuldbindingar okkar í þessu samstarfi. Grundvöllur þess er að aðildarríkin hafi samræmda löggjöf þegar kemur að fjórfrelsinu. Við höfum skuldbundið okkur til að virða það enda er óumdeilt að hagsmunir okkar eru best varðir í nánu samstarfi með nágrannaríkjum okkar. Niðurstaðan er frumvarpið sem hæstv. ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur nú kynnt.

En líka hafa heyrst gagnrýnisraddir. Þrátt fyrir nær fullkomna einingu um kosti EES þá hafa einstaklingar stigið fram og fullyrt að með þessu sé verið að valta yfir Íslendinga. Það er líklega aldrei hægt að þóknast öllum. Sömu aðilar halda kannski að önnur sjónarmið gildi um okkur en um Norðmenn og Liechtenstein, að okkar fámennu þjóð muni vegna betur í einangrun frá alþjóðasamfélaginu frekar en í nánu samstarfi við nágrannaríki okkar. Staðreyndin er sú að EES hefur ekki aðeins aukið lífsgæði á Íslandi til muna heldur mun frumvarpið sem hér er til umræðu auka réttarvernd einstaklinga og fyrirtækja umfram það sem nú gildir. Það mun draga úr réttaróvissu og leiða til þess að auðveldara verður að leysa úr deilumálum á grundvelli Evrópuréttar.

Frumvarpið er mjög einfalt. Það segir að ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði um EES-rétt er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Síðasti parturinn er mjög mikilvægur: Nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Það er nefnilega ljóst að þrátt fyrir almennu regluna mun Alþingi alltaf eiga síðasta orðið um það hvaða lög gilda á Íslandi. Þetta síðasta atriði slær öll vopn úr höndum gagnrýnenda. Eins og ég sagði í upphafi þá er um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég styð það heils hugar og vona að það verði að lögum sem allra fyrst.