Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að EES-samstarfið hafi gengið of langt og hvort hv. þingmaður vilji deila því með þingheimi hvað af EES-samstarfinu, hvaða hluta hann vill draga til baka, hvort hv. þingmaður vilji yfir höfuð að Ísland sé í EES-samstarfinu og þá að öllu leyti eða að hluta til. Hv. þingmaður nefndi hér að það væri einhver frasi að tala um að þetta væri allt búið og gert og þetta loforð hafi verið gefið fyrir 30 árum. En raunveruleikinn er einfaldlega sá að þetta loforð var gefið fyrir 30 árum. Hv. þingmaður fullyrti í sinni ræðu að við hefðum ekki getað beitt þeim úrræðum sem við beittum eftir hrun ef við hefðum farið fram með þetta frumvarp og það hefði orðið að lögum. Ég bara verð að leyfa mér að spyrja hinnar almennu spurningar: Um hvað er hv. þingmaður eiginlega að tala? Hvað af því sem við gerðum þá hefðum við ekki getað gert ef við hefðum tryggt það að við værum að standa við bókun 35 sem við lofuðum að gera fyrir 30 árum síðan? Telur hv. þingmaður að forsendur EES-samningsins séu að einhverju leyti brostnar í ljósi þess að samstarfið hafi aukist og umsvif þess hafi aukist? Ég tel skipta máli að það sé alveg skýrt að við erum einvörðungu að tala um íslensk lög. Þetta frumvarp felur það í sér hvernig eigi að túlka íslensk lög og íslensk lög. Ekki útlensk lög og íslensk lög heldur íslensk lög sem Alþingi hefur fengið til sín, hafa farið í gegnum þinglega meðferð og íslenskt löggjafarþing hefur ákveðið að gera að lögum. Það er aldrei þannig að stjórnvaldsfyrirmæli, hvort sem þau eru íslensk eða koma að utan og verða íslensk eða hvaðan þau koma, muni gilda framar íslenskum lögum. Ég vil bara minna hv. þingmann á það að þegar samningurinn var gerður var bókun 35 samþykkt (Forseti hringir.) og hún segir og sagði þá að vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmda og annarra settra laga skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. (Forseti hringir.) Það sem við erum að gera hér er að tryggja að þetta standi.