Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

málefni eldra fólks.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég hef átt ágætissamtal við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvað lýtur að málefnum eldra fólks. Þannig er mál með vexti að ég mælti fyrir þingsályktunartillögu, fyrst árið 2019, þar sem ég fer fram á að við komum á fót hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk, þótt fyrr hefði verið. Þrívegis mælti ég fyrir nákvæmlega þessu máli og mig langar að lesa hér upp þingsályktun um hagsmunafulltrúa eldra fólks sem var samþykkt af 54 þingmönnum, öllum þingmönnum sem voru til staðar í þeirri atkvæðagreiðslu, að ráðherrum meðtöldum:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp“ — takið eftir — „til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.“

Þetta var samþykkt á Alþingi 13. júní 2021. Einhverra hluta vegna breyttist þessi vilji löggjafans í það að tala um gæðaárin og hvað það ætti í rauninni að vera gott að eldast á Íslandi, en þessi þingsályktunartillaga sem ég mælti fyrst fyrir 13. maí 2019, flutti síðan 24. september 2019 og 7. október 2020, rataði út úr nefnd í júní 2021 og var samþykkt af öllum greiddum atkvæðum hér á Alþingi Íslendinga 13. júní 2021 — það bólar í raun ekki á þessu enn þá og virðist eiga að slá því á frest. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Með fullri virðingu fyrir því sem er verið að gera fyrir eldra fólk, er ekki að hans mati ástæða til þess að við komum á þessu embætti og fylgjum eftir skýrum vilja löggjafans í þeim efnum?