Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hann leggur mér orð í munn og segir að ég sé ekki sátt við þetta frumvarp. Ég sagði það aldrei. Ég er að segja að 44% vöxtur á fátækt íslenskra barna er staðreynd síðustu sex árin. Hann segir mér að heimsækja hina og þessa. Það er vel. Ég get alls staðar komið í heimsókn. Ég bið líka hæstv. ráðherra að heimsækja fjölskyldur fátækra barna og segja þeim og börnunum í leiðinni að það sé gott að vera barn á Íslandi. Það er gott að vera fátækt barn á Íslandi þar sem þér er mismunað, elsku litla barn, og getur ekki tekið þátt í því sem almennt er talið eðlilegt í siðmenntuðu samfélagi sem vill kenna sig við réttarríki og jöfnuð. Hæstv. ráðherra, ég skora á þig að segja við þessi börn að það sé gott að vera barn á Íslandi, gott að vera fátækt barn á Íslandi í boði ríkisstjórnar sem hefur mistekist í öllu við að útrýma fátækt.