Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi enda nauðsynlegur liður í þeirri uppbyggingu sem við erum öll saman í er varðar samþættingu þjónustu í þágu barna. Hún skiptir máli. Þetta eru bara alls konar viðbætur sem er verið að gera á hinum ýmsu lögum, svokallaður bandormur, og er það bara gott. Það ríkir um það þverpólitísk samstaða að auka þjónustu við börn, en það ríkir ekki þverpólitísk samstaða um að geyma börn á biðlistum, hæstv. ráðherra. Biðlistar eru risastór svartur blettur á íslensku samfélagi. 1.157 börn bíða að meðaltali í 12–14 mánuði eftir greiningu. Ef beðið er eftir einhverfugreiningu er biðtíminn 22–24 mánuðir. Við erum að tala um samþættingu á þjónustu. Barn á við einhverja erfiðleika að etja og þó að þjónustu eigi að veita strax og þjónustu eigi að veita óháð greiningu þá þurfa fagaðilar oft að vita hvaða nálgun er best þegar um er að ræða einstaka barn; hvaða nálgun er best fyrir þetta barn. Við getum búið til allar mögulegar skýjaborgir, alls konar kerfi, en á meðan við látum barn bíða í tvö ár eftir þjónustu — nei, bíða í tvö ár eftir greiningu og svo bíða eftir þjónustu eftir það þá getur verið um að ræða gríðarlega stóran hluta af barnæskunni. Þetta getur verið barn sem fór ekki á biðlista fyrr en í 2. eða 3. bekk, hefur mögulega einangrast í leikskóla (Forseti hringir.) og hvenær kemur svo að þjónustunni? Við þurfum aðeins að hugsa: (Forseti hringir.) Hvenær ætlum við að fjárfesta í þessu, hæstv. ráðherra?