Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Við ræðum hér samhæfingarfrumvarp, sem allt er til bóta fyrir blessuð börnin en sem breytir engu um það að einhver þeirra eru orðin að fullorðnu fólki loksins þegar lögin koma til framkvæmda og hafa algjörlega misst af öllum gæðunum. Sem breytir engu um það að fátækt íslenskra barna hefur vaxið um 44% á síðustu sex árum. Sem breytir engu um það að læsi íslenskra barna hefur farið hrakandi og nú eru um 38% barnanna okkar að mælast illa læs eða með lélegan lesskilning.

Ég velti fyrir mér þegar verið er að tala um samræmingu, þegar við erum að tala um hvernig við eigum að nýta fjármuni sem við höfum til verkefnanna, þá velti ég fyrir mér hvernig í rauninni við forgangsröðum fjármunum og hvaðan við tökum helst þessa fjármuni. Erum við að sækja fjármuni í þær hirslur sem eru stútfullar af peningum fyrir? Nei. Af hverju gerum við það ekki? Vegna þess að hér erum við undir stjórn ríkisstjórnar sérhagsmunaafla sem snertir ekki — snertir ekki við þeim fjárhirslum sem eru stútfullar af peningum svo út úr flæðir. Nei. Afleiðingin af þessari stefnu og þessari skýru stjórn mun einungis verða sú að fátækt fer einmitt vaxandi.

Við höfum sennilega sjaldan — til hamingju, stórútgerð — getað státað af eins miklu aflaverðmæti upp úr sjó og við gátum gert á síðastliðnu ári, 2022. Heyr, heyr. Ég veit ekki betur en að bankarnir séu svo gjörsamlega að springa af peningum og það sem við erum að ganga í gegnum í dag, íslenskt samfélag, sú verðbólga sem við erum að ganga í gegnum í dag, bara svo hugtakið verðbólga sé sett fram á sem einfaldastan hátt, er tilfærsla fjármuna í samfélaginu frá þeim sem eru fátækari til þeirra sem eru ríkir. Það landslag sem við búum við í dag er einungis til að auka á örbirgð og auka á fátækt. Það er eitt að samhæfa alla þjónustu. Það er eitt að kerfin tali saman, sem er gott vegna þess að ég sat í fjögur ár í þessari barnamálanefnd skipaðri af hæstv. ráðherra. Við unnum verk okkar vel og öll af vilja gerð. Þetta voru fagleg vinnubrögð sem breyta samt sem áður í engu því hvernig þúsundum íslenskra barna líður í dag í samfélaginu. Eftir hverju við erum að bíða til þess raunverulega að stíga inn og taka utan um þennan þjóðfélagshóp, börnin okkar? Ég get ekki svarað því því ég fæ það ekki skilið.

Ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra áðan, var nú svolítið hvassyrt eins og mér verður stundum á. Talandi um töfralausn, ég er með töfralausn, það eru alveg hreinar línur. Ég mun ævinlega setja það á oddinn að forgangsraða fjármunum hér fyrir fólkið fyrst og svo allt hitt. Við í Flokki fólksins myndum ekki hika við að láta stórútgerðina greiða okkur sanngjarnt og fullt verð fyrir aðgang að auðlindinni okkar, sameiginlegri auðlind okkar. Þeir eiga að leggja meira inn í samfélagið og sérstaklega núna þegar við erum að berjast í bökkum, sérstaklega núna.

Og annað. Hæstv. fjármálaráðherra lækkaði bankaskatt, náttúrlega með stuðningi þessarar ríkisstjórnar, úr tæplega hálfu prósenti — takið eftir; bankaskatturinn var tæplega hálft prósentustig, 0,465% eða eitthvað álíka, ef ég man rétt — og lækkaði hann hreinlega niður fyrir 0,2%. Á sama tíma varð ríkissjóður af 9 milljörðum kr., 9.000 millj. kr. Hvað gætum við, frú forseti, gert við þessa fjármuni ef við myndum taka þá til að forgangsraða þeim fyrir fólkið fyrst? Myndum við vera að horfa á vaxandi fátækt íslenskra barna um tæp 44%? Ég leyfi mér að efast um það.

Ég er orðin langeyg eftir úrbótum og búin að vera hér í fimm ár á Alþingi og horfa upp á vaxandi örbirgð og vita að það er engum um að kenna nema sitjandi ríkisstjórn, engu. Þeir geta ekki skrifað þetta ástand sem er í samfélaginu í dag á neitt nema eigin verk og eigin mistök, vegna þess að það er það sem ég kalla þetta, mistök. Það eru mistök stjórnvalda sem eru búin að koma því þannig að þjóðinni blæðir, að þjóðin grátbiður um hjálp. Þetta frumvarp hæstv. ráðherra er virkilega fallegt fyrir börnin. En þetta frumvarp gerir ekkert fyrir börnin í dag sem eru að biðja um hjálp og eru utan garðs í samfélaginu og eru að berjast í sárri fátækt, fátækt sem er foreldranna, fátækt sem er foreldranna sem eru hnepptir í sárafátækt. Við skulum bara hafa það algerlega á hreinu, það er alfarið, 100%, í boði íslenskrar ríkisstjórnar hvernig komið er fyrir samfélaginu í dag. Þeim er í lófa lagið að sækja milljarða á milljarða ofan og tugi milljarða ofan þangað sem alla hirslur eru fullar af fé. En í staðinn þá loka þeir augunum, snúa blinda auganu að því og láta þjóðinni blæða áfram.

Ég skal bara viðurkenna það, frú forseti, að ég hef skömm á svona stjórnvöldum, algjöra skömm á svona stjórnvöldum, enda er ég málsvari þeirra sem hafa verið settir hér hjá garði svo árum skiptir og engin breyting virðist eiga að verða þar á, engin. Þannig að burt séð frá því hvað hæstv. mennta- og barnamálaráðherra af sínum góða vilja er að samræma kerfið fyrir börnin okkar þá eru þau hér á löngum biðlista eftir hjálp, bæði hvað lýtur að sálfræðiþjónustu, hvað lýtur að greiningarþjónustu, hvað lýtur að talmeinaþjónustu og hverju öðru sem er og hvað lýtur að því að fá að taka þátt í samfélaginu með sínum jafnöldrum. Við eigum þúsundir af snillingum sem aldrei fá að blómstra vegna þess að þau eiga fátæka foreldra sem geta ekki og hafa ekki ráð á því að hjálpa þeim að fara í tónlistarnám eða koma þeim í íþróttir eða nokkurn skapaðan hlut annað. Þau eru sem sagt algjörlega sett hjá garði, algerlega. Ef það er ekki í boði ríkisstjórnarinnar þá spyr ég: Í boði hverra er það? Til hvers erum við kjörin hér á Alþingi Íslendinga? Það er til þess að fara með stjórn á málefnum samfélagsins. Það er til þess að setja lög og reglur fyrir aðra til að fylgja. Það er til að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna það að verkin sem við vinnum eru í anda alls samfélagsins en ekki bara sumra. Þess vegna er ömurlegt, hreinlega ömurlegt að þurfa að kokgleypa það að hér sé í raun og veru stöðugt vaxandi fátækt undir þessari ríkisstjórn.