Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[17:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Það var bara frábært. Árið 2016, eins og ég benti á áður, hafði UNICEF á Íslandi gefið út þá tölu að hér væri 9,1% barna sem byggi við mismikinn skort og núna, sex árum seinna, kom ný úttekt sem segir að 13,1% íslenskra barna búi við mismikinn skort. Þannig að á þessum tímapunkti hefur fátækt íslenskra barna vaxið úr 9,1% í 13,1% og talið að áður hefðu þetta verið um 6.700 börn sem byggju hér við fátækt en að nú værum við komin yfir 10.000. Þannig, hv. þingmaður, og á engan annan hátt fæ ég út 44% með einföldu reikningsdæmi sem segir: Tveir plús tveir eru fjórir.