Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

938. mál
[19:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langaði að benda á það varðandi þann stýrihóp sem verið er að skipa í kringum þessa nýju reglugerð hjá Evrópusambandinu, það er sem sagt búinn til stýrihópur þegar krísur fara í gang, þá vorum við að þrýsta á það að Ísland eða a.m.k. EFTA-löndin ættu fastan fulltrúa í þessari nefnd og vonandi náðist það í gegn í okkar samtölum við Evrópusambandið, en það væri gott ef það kæmi líka annars staðar frá. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart við þetta mál var í rauninni það að við værum ekki með svona birgðastöðu í dag og þekkingu á henni. Mig langaði bara örstutt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér þessa vöktun á því að það vanti ákveðin lyf, hvernig hún á sér stað og hvernig við getum tryggt að fólk fái þau lyf sem það þarf.