Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[16:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn (hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins). Frumvarpið er samið í heilbrigðisráðuneytinu og felur í sér tillögu um nýtt ákvæði til bráðabirgða í lög um heilbrigðisstarfsmenn sem kveði á um heimild til undanþágu frá reglu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem segir að hámarksaldur starfsmanna ríkisins skuli miðast við 70 ár.

Frumvarpið er skrifað vegna þeirra miklu áskorana sem felast í því verkefni að manna heilbrigðiskerfið með fullnægjandi hætti. Frumvarpinu er þó ekki ætlað að leysa mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins heldur er það einungis einn liður í því stóra verkefni að heilbrigðisþjónustan verði mönnuð með fullnægjandi hætti. Það er alþjóðleg áskorun og mikilvægt að við horfum til þess við þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu.

Drög að lagafrumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 6. desember 2022. Alls bárust átta umsagnir og fjallað er um þær í greinargerð með frumvarpinu. Frumvarpið felur í sér að nýtt ákvæði bætist við lög um heilbrigðisstarfsmenn til bráðabirgða í fimm ár. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að gildistaka bráðabirgðaákvæðisins miðist við 1. janúar 2024 og með því verður vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar tryggður rúmur viðbragðstími. Ef — ég tek það fram, ef — breyta þarf reglum eða samþykktum í takt við lagabreytinguna, sem blasir ekki við, gerir frumvarpið ráð fyrir að bráðabirgðaákvæðið gildi til 31. desember 2028, þ.e. í fimm ár.

Virðulegi forseti. Ákvæði frumvarpsins kveða á um að ríkisreknum heilbrigðisstofnunum verði heimilt að gera ráðningarsamninga við heilbrigðisstarfsfólk á aldrinum 70–75 ára og er það breyting frá gildandi lögum sem banna að ráðningarsamningar við starfsmenn ríkisins gildi lengur en til næstu mánaðamóta eftir að 70 ára aldri starfsmanns er náð. Í dag er eingöngu heimilt að gera svokallaða tímavinnusamninga við fólk á þessum aldri um störf hjá ríkinu. Með ráðningarsamningum verða heilbrigðisstarfsmönnum tryggð betri kjör og réttindi. Heilbrigðisráðuneytið kannaði aldursskiptingu heilbrigðisstarfsmanna í störfum hjá ríkinu innan þeirra heilbrigðisstétta sem mest vantar fólk í. Hlutfall heilbrigðisstarfsfólks í störfum hjá ríkinu sem náð hefur 70 ára aldri var um 2% í þeim stéttum á síðasta ári, á árinu 2022. Gert er ráð fyrir að hlutfall heilbrigðisstarfsfólks í hópi 70 ára og eldri muni hækka í störfum hjá ríkinu verði frumvarpið samþykkt.

Virðulegi forseti. Frumvarpið gerir kröfu um að það starf sem ráðningarsamningurinn tekur til feli í sér bein samskipti við sjúklinga, sé við stoðþjónustu eða rannsóknir í tengslum við þjónustu við sjúklinga eða handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks eða nema. Undanþágan nær því ekki til stjórnunarstarfa, embætta eða starfa hjá kennslustofnunum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðning skuli vera tímabundin í eitt ár í senn og endurnýja megi tímabundna ráðningu samkvæmt ákvæðinu þar til starfsmaður nær 75 ára aldri. Heimilt verði í undantekningartilvikum að láta ráðningu vara í allt að tvö ár. Ráðning skuli þó aldrei vara lengur en til loka þess mánaðar er heilbrigðisstarfsmaður nær 75 ára aldri. Til að undanþágunni verði beitt þarf heilbrigðisstarfsmaður í fyrsta lagi að vilja starfa eftir sjötugt. Í öðru lagi þarf vinnuveitandi að vilja ráða viðkomandi og gera við hann ráðningarsamning og í þriðja lagi verður vinnuveitandi að ganga úr skugga um að umræddur heilbrigðisstarfsmaður búi yfir færni og heilsu til að sinna starfinu.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þá undanþágu sem frumvarpið gerir ráð fyrir á aldurshámarki heilbrigðisstarfsmanna hjá ríkinu verður áfram skylt að segja öllum heilbrigðisstarfsmönnum í starfi hjá ríkinu upp störfum við 70 ára aldur skv. 1. gr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Ekki er hér verið að hrófla við eftirlauna- eða ellilífeyrisaldri. Ekki er heldur verið að hrófla við aldursviðmiðum um greiðslur iðgjalda til skyldutryggingar lífeyrisréttinda sem samkvæmt lögum lýkur með öllu við 70 ára aldur. Heilbrigðisstarfsmönnum sem ráðnir verða samkvæmt ákvæði frumvarpsins verður þó heimilt að greiða iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar í séreignarsjóð lífeyrisréttinda og þiggja mótframlag vinnuveitanda samkvæmt kjarasamningum og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Það er raunverulega í gildi í dag þannig að engin breyting er þar á. Ef sama stofnun ræður heilbrigðisstarfsmann samkvæmt ákvæðinu, eftir að hafa sagt honum upp störfum sökum aldurs, kveður frumvarpið á um undanþágu frá auglýsingaskyldu opinberra starfa sem kveðið er á um í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996.

Virðulegi forseti. Mat á áhrifum frumvarpsins á ríkissjóð hefur farið fram og verði það óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjaldahlið ríkissjóðs.

Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og við erum að tala hér um tvær greinar í frumvarpinu, þetta sérákvæði. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.