Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[17:04]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans andsvar. Mér fannst eins og hann hefði beint til mín spurningu, hvort ég væri á móti þessari breytingu. Það getur vel verið að hægt sé að samþykkja breytingu af því að það sé orðin svo mikil neyð. En maður veltir fyrir sér: Hvers vegna er þessi neyð til komin? Gerðist þetta bara af sjálfu sér, af því að enginn vildi vinna í heilbrigðiskerfinu? Af hverju er mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu? Er það bara af því bara? Af hverju velur hjúkrunarfræðingur að vinna í flugi, vera flugliði? Af hverju fara sjúkraliðar í önnur störf en þeir eru menntaðir til? Er það bara af því bara? Það er fullt af fólki þarna úti sem er búið að mennta sig í heilbrigðisfræðum en hefur valið að vinna ekki við það sem það er búið að mennta sig til. Það er það sem framkallar þennan mönnunarvanda. En ég held að ástæðan fyrir því að viðkomandi aðilar hafa valið að vinna í öðrum greinum sé algerlega skýr. Ég held að við hæstv. ráðherra, sem ég veit að er allur af vilja gerður til að bæta þetta kerfi, séum alveg sammála um það. Það er bara margt hér sem þarf að skerpa á til að bæta það. Það eru aðstæður sem heilbrigðisstarfsfólk býr við, fyrir utan það að stór hluti þessara starfsmanna eru konur og við þekkjum launamun á milli kvenna og karla í þessu samfélagi. Það rekur fólk kannski út af þessum stofnunum þar sem litlu er hægt að breyta. Ég veit ekki hvort ég ætla að beita mér gegn þessu. En mér finnst ástæðan fyrir því að verið er að heimila lengri vinnu fyrir ákveðinn hóp en ekki fyrir aðra vera skrýtin.