153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[17:20]
Horfa

Guðný Birna Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Við erum alveg sammála í mörgu og ég skil að þetta er ein hugmynd að mögulegri lausn þótt hún muni að sjálfsögðu ekki leysa stóra vandamálið. Við þurfum að kortleggja álagið á fólkið okkar og við þurfum að svara því hvernig á því stendur að fólk fer í þetta dýra nám í þennan árafjölda, þrjú til fjögur ár, leggur sig allt fram, og gefst upp eftir tíu ára starfsaldur. Þetta er ekki eðlileg framför eða þróun í starfi, sem segir manni að fólki þyki óboðlegt að starfa þarna til lengri tíma af því að álagið er yfirgengilegt. Að sjálfsögðu skil ég hugmyndirnar um að fjölga námsplássum og taka inn eldri hjúkrunarfræðinga til að reyna að fá fleiri á svæðið, ég skil það og ber virðingu fyrir því, en það mun að sjálfsögðu ekki leysa allt vandamálið. En við þurfum að passa þessa sérfræðinga sem eru orðnir mjög færir í sínu starfi eftir 10–15 ár í starfi. Við erum að missa þetta fólk og við þurfum að greina af hverju það er.