153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[17:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með þetta frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra og þakka hv. þm. Ingibjörgu Ólöfu Isaksen fyrir sitt innlegg. Ég er bjartsýnn á að þetta muni fljúga í gegn. Þetta speglar heilbrigða skynsemi og nýjan veruleika sem er auðvitað allt annar en hann var um 1940 þegar gildandi lög voru sett. Ég treysti því og vona að bæði hv. þingmaður og hæstv. heilbrigðisráðherra séu mér sammála um að hér sé á vissan hátt verið að brjóta blað. Lögin kveða skýrt á um að 70 skal það vera og ekki degi lengur og nú blasir við sú undarlega staðreynd að síðan haustið 2021 er einn starfandi þingmaður á Alþingi sem er 73 ára og hann þarf að búa við það að vera skertur um 11,5% í launum við það eitt að hafa náð sínum virðulega aldri. Hér er um að ræða hv. þm. Tómas Andrés Tómasson sem hefur rekið veitingahús um áratugaskeið í fjölmörgum þjóðlöndum og mörg hér á Íslandi. Þetta eru skilaboðin. Málið hefur verið „til skoðunar“, en engrar lausnar og ég hef beitt mér fyrir því að forseti Alþingis og fjármálaráðherra og fleiri taki þetta föstum tökum en þetta er enn í einhvers konar biðstöðu og menn klóra sér í höfðinu. Gætum við ekki verið sammála um það öll hér inni að þetta sé gloppa í kerfinu af svipuðum toga og sú sem hér er verið að lagfæra?