153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[17:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það eru auðvitað mörg sjónarhorn á þetta sem við erum að ræða hér og auðvitað alveg hægt að kjósa að horfa á þetta bara mjög jákvæðum augum á margan hátt ef við horfum á þetta almennt. Lífaldur okkar hefur aukist, starfsþrek hefur vaxið og margir kynnu að kjósa að vinna lengur. En við skulum alltaf hafa þann fyrirvara samt að það verður að vera val fólks og ég held að það sé nú í augnablikinu þannig að 13% þeirra sem eru 67 ára og eldri á almenna markaðnum kjósi að vinna áfram. Flestir kjósa að breyta til á þessu fína æviskeiði sem það er fyrir flesta. Mér fannst hæstv. heilbrigðisráðherra kannski ekki vera alveg nógu trúverðugur þegar hann talaði um að þetta væri kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að verið væri að ráðast í þetta og svo kæmu hinir málaflokkarnir á eftir. Ég hefði einmitt haldið að það ætti að horfa á þetta heildstætt og á allar starfsstéttir af því að það kemur auðvitað síðar fram í greinargerðinni að það er verið að horfa til mönnunarvanda í heilbrigðisþjónustunni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því vandamáli. Það stendur hérna orðrétt, frú forseti:

„Til þess að ná markmiði frumvarpsins um fullnægjandi mönnun heilbrigðiskerfisins þarf að breyta lögum þannig að heimilt verði að bjóða fólki yfir sjötugt sanngjörn kjör með ráðningarsamningi. Frumvarpið felur í sér að í fimm ár verði heilbrigðisstarfsfólki heimilað að starfa við heilbrigðisþjónustu hjá ríkinu samkvæmt ráðningarsamningi eftir sjötugt.“

Ég skil þetta auðvitað en það verður samt að horfa á málið í því ljósi að þetta er ekki eitthvert frumkvöðlastarf hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og það hefði verið betra að taka þetta í miklu víðara samhengi. Þá getum við átt þá umræðu, sem við getum, held ég, öll verið sammála um, að það felst mjög mikill mannauður í þessum hópi og um að gera að gera þeim mögulegt að vinna sem það vilja.

Áðan flutti hv. þm. Guðný Birna Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fína ræðu. Ég tek undir það sem þar kom fram en ætla kannski að vera á öðrum slóðum, en eitt af því sem hún sagði sem mér fannst svo fínt var að þegar kemur að mönnunarvandanum þá höfum við látið þetta gerast. Og það er svo margt sem við Íslendingar höfum látið gerast. Ég er að fara í ræðu á eftir um uppbyggingu flugvalla og það var sláandi þegar ég hlustaði á ræðurnar áðan og hugsaði: Það er bara mál eftir mál hér á þinginu þar sem áskoranirnar eru orðnar svo stórar vegna búsetuþróunar í landinu að það verður að leggja hana sérstaklega til grundvallar þegar við skoðum málin. Ég ætla aðeins að taka þann vinkil. Nú búa 75% allrar þjóðarinnar hér á litlu svæði og við erum að reyna að byggja upp hátæknisjúkrahús, góða öldrunarþjónustu og almenna heilbrigðisþjónustu. Svipað ástand er kannski akkúrat í Eyjafirðinum en þar fyrir utan, á þessum 103.000 ferkílómetrum, erum við að glíma við gríðarlega stóran vanda í heilbrigðiskerfinu. Mér fannst í rauninni þegar ég hlustaði á framsöguna að það væri aðeins verið að tala inn í ástandið þar vegna þess að ég er búinn að vera á fjölmörgum fundum núna víða um landið og það sem situr eftir er að við sem búum í þéttbýlinu gerum kröfu til góðrar og skjótrar heilbrigðisþjónustu en fólkið í dreifðustu byggðunum er orðið óþægilega nægjusamt. Það býr margt við þær aðstæður að það er stundum læknir á staðnum, stundum ekki. Þetta er oft fólk sem er búið að vinna mjög langa starfsævi við mjög erfið skilyrði og er komið fast að sjötugu. Það er ekki öfundsvert fyrir neinn lækni, hvað þá fullorðið fólk, að vinna við þær aðstæður að þurfa að starfa á mjög stóru svæði við mjög erfiðar samgöngur, oft í vondu veðri, og vera ein, þurfa ekki bara að vera í vinnunni heldur þurfa líka að taka bakvaktirnar. Sama á auðvitað við um hjúkrunarfræðinga. Þetta er bara orðið sjálfstætt vandamál, frú forseti. Nú vil ég halda því til haga að þetta er ekki vandamál sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á. En það er hins vegar í augnablikinu á verksviði ráðherra að reyna að leysa þetta. Ég þekki dæmi eins og kom fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Isaksen um mjög mikilvægan sérfræðilækni á Norðurlandi og Austurlandi sem vegna aldurs gat ekki haldið áfram að vinna fyrir sína heilbrigðisstofnun þrátt fyrir að bæði hann og stofnunin vildu það og það þurfti að gera einhverja verktakasamninga. Það er auðvitað í því ljósi ekki skrýtið að það komi fram svona mál og ég ætla ekkert að gera lítið úr því. En það verður samt stundum að segja hlutina eins og þeir eru. Við erum að bregðast við hlutum sem við höfum látið gerast í þessu landi og áskoranirnar eiga ekki eftir að minnka.

Ég sló bara að gamni upp heilbrigðisþjónustu á Austurlandi og fyrsta fréttin sem ég fæ er um fólk á Seyðisfirði sem býr náttúrlega hluta úr ári við óboðleg skilyrði og mikla einangrun. Þar er ekki læknir í þrjá til fjóra mánuði á ári og það er hjúkrunarfræðingur á Borgarfirði eystri og langt á milli.

Ég ítreka það að við verðum auðvitað að hugsa gríðarlega vel um mönnun okkar stærstu og öflugustu og mikilvægustu hjúkrunarstofnana en við þurfum að fara í sérstaka vinnu við að gera því fólki sem býr í dreifðari byggðum mögulegt að lifa í þessu landi. Það var samkomulag þegar við vorum að brjótast til sjálfstæðis hérna upp úr árinu 1900 að sökum fámennis yrðum við að byggja upp helstu stofnanir þjóðarinnar á einum stað og það hefur auðvitað ýkt alla íbúaþróun langt umfram það sem nokkur þjóð hefur verið að glíma við. En hluti af þessum samningi var auðvitað að þetta fólk væri ekki afskekkt. En núna býr það ekki eingöngu við skerta heilbrigðisþjónustu, það býr líka við brotið menntakerfi mjög víða eða þarf að eyða mjög miklum peningum til að senda börn sín til mennta og samgöngurnar eru nú kannski ekki heldur neitt til að hrópa húrra yfir. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er ofboðslega mikil vinna og langtímaverkefni. En við þurfum öll að leggjast á árar til þess að gera þetta samfélag byggilegt fyrir alla sem hér búa, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er bara hlutverk okkar.