153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[18:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tel að reynsla sé afar dýrmæt og góð í bland en ég held líka að dirfska æskunnar sé nauðsynleg til að hreyfa við hlutunum; hæfileg blanda af öllu þessu er, held ég, góð. Ég skildi það ekki þannig að hv. þingmaður, eða hæstv. ráðherra yfir höfuð, ætlaði sér að skylda nokkurn til að vinna en það getur myndast á fólki pressa sem er ekki lögbundin. Við þekkjum það t.d. með ástvini, hvernig eiginkonunum, sem fyrr á tíðum voru kannski yngri og eltust betur og hægar en eiginmennirnir, rann blóðið til skyldunnar og breyttust úr því að vera elskaðar eiginkonur yfir í að vera hjúkrunarfræðingar sem leiddi svo til ótímabærrar öldrunar hjá þeim, hjá þeim sem sáu um umönnunina. Skyldan getur þannig auðvitað herjað á okkur með misjöfnum hætti, það var bara það sem ég var að tala um.

Ég held líka að það hafi verið ágæt ákvörðun hjá hv. þingmanni að gerast tónlistarmaður, hann er fínn í því. Ég veit ekki hvort ég hefði pantað mér tíma hjá honum sem lækni. En þó, hver veit? En jú, jú, við eigum auðvitað bara að skilja kall tímans og við erum að sjá þjóðfélagsbreytingar, fólk lifir lengur og er frískt miklu lengur. Gefum fólki því möguleika til að vinna en skyldum það ekki til þess og ræðum þetta þá í heild sinni en ekki bara um þetta afmarkaða stig.