153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

uppbygging og rekstur flugvalla og þjónusta við flugumferð.

941. mál
[18:32]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar er svolítið sérstakt fyrirbæri þar sem skipulagið á þessu svæði heyrir undir utanríkisráðuneytið en ekki viðkomandi sveitarfélag eins og hefðbundið er og algengast og við þekkjum. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þessi breyting er sprottin upp úr því að sveitarfélögum var fækkað en það hafa ekki neinar áhyggjur sprottið upp hjá sveitarfélögunum af því að þau væru þá að missa eitthvert hlutfall af valdi enda er þetta samráðsvettvangur sem hefur, held ég, að nokkru leyti gengið ágætlega og menn hafa alla vega getað farið í þá uppbyggingu sem til þarf.

Varðandi spurningu hv. þingmanns, um af hverju ekki sé vísað til 4. mgr., þá er ég bara ekki með svar við því og verð bara að treysta því að nefndin taki það upp við ráðuneytið eða ráðuneytið hafi frumkvæði að því að hafa svör um það.