153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

vopnalög.

946. mál
[20:54]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á ekkert ólíkum slóðum og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Í því bæjarfélagi sem ég bý í, Kópavogi, er rekið afar metnaðarfullt starf hjá Skotíþróttafélagi Kópavogs og þar hefur verið ákveðið vandamál sem felst í því að þau börn sem þar æfa skotfimi geta ekki keppt á jafnréttisgrundvelli við þau börn sem æfa skotfimi t.d. á Norðurlöndunum eða annars staðar í Evrópu. Aðgengi þeirra sem hér búa að t.d. loftskammbyssum til að keppa með er engan veginn sambærilegt við það sem gerist annars staðar af því að flokkunin á vopnunum sem um ræðir, sem eru raunverulega ekki notuð sem vopn heldur bara til að keppa, gerir þeim það einfaldlega óheimilt. Ég sé að þarna er að vissu leyti slakað á þessum takmörkunum, upp að 7,5 J, sýnist mér. En ég get ekki betur séð en að það þurfi áfram að hafa skotvopnaleyfi. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra telji nóg að gert og hvort það sé ekki hægt að liðka fyrir þessu þannig að þau börn sem vilja stunda þessa íþrótt geti raunverulega gert það á jafningjagrundvelli við önnur börn. Svo er ég að velta fyrir mér öðru, nýrri 6. gr. a, þar sem er fjallað um takmarkanir á útflutningi á ýmsum hugbúnaði. Ég velti fyrir mér hvernig ráðherra sjái fyrir sér (Forseti hringir.) að hægt sé að ná þeim markmiðum sem um ræðir við að flytja út slíkan hugbúnað.