Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Húsnæðismál.

[16:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er sama hversu oft ráðherrar ríkisstjórnarinnar boða til glærusýninga, oft reyndar sem aukaleikarar hjá borgarstjóranum í Reykjavík, til að kynna einhverjar stórkostlegar skýjaborgir; áform í húsnæðismálum, 18.000 íbúðir, 20.000 íbúðir, 25.000 íbúðir, 30.000 íbúðir. Það gerist ekkert. Skýjaborgirnar hverfa eins og dögg fyrir sólu eins og við er að búast þegar menn líta ekki til staðreyndanna, líta ekki á innihaldið, koma ekki með lausnir sem virka heldur láta nægja að búa til glærur, kynningar sem oft virðast fyrst og fremst leið til að ná öðrum markmiðum, eins og markmiðum borgaryfirvalda hér um þéttingu byggðar og borgarlínu. Ef mönnum væri alvara með mikilvægi þess að fjölga hér íbúðum myndu þeir hætta einstrengingslegri þráhyggju á borð við að allt þurfi að vera hluti af einhverri þéttingu byggðar eða einhverri borgarlínu en myndu nýta landið sem fyrir liggur til að byggja upp meira og hraðar. Menn myndu gera þær breytingar á byggingarreglugerð sem gætu hjálpað til við það. En svo þyrfti náttúrlega líka að ná tökum á efnahagsástandinu til að koma hér á heilbrigðum fasteignamarkaði, húsnæðismarkaði. Það er ekki mikil von um það með þessa ríkisstjórn sem er nýbúin að kynna fjármálaáætlun sína til að takast á við stórkostlegan vanda í formi verðbólgu og síendurtekinna vaxtahækkana — með hverju? Jú, nýjum skattahækkunum.