Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[19:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú biðst ég afsökunar á því ef ég hef virkað of neikvæður vegna þess að það er alveg ástæða til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þetta framtak, jafnt á öðrum fagsviðum sem þessu, og það er heilmargt gott í þessu. Ég vildi bara draga það upp að ég tel að við séum með í gildi Menningarstefnu í mannvirkjagerð – stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist sem fjölmargt mjög flinkt fólk kemur að, m.a. annar höfundur að nýbyggingunni þarna hinum megin. Ég hefði gjarnan viljað sjá að mjög mikilvægir hlutir úr þeirri stefnu hefðu verið dregnir inn í þessa þingsályktunartillögu með beinni hætti og auðvitað er alveg hægt að bæta úr því. Tilgangur minn hingað upp var alls ekki, ef það hefur virkað þannig, að rífa niður þessa vinnu. Þvert á móti var ég mjög glaður þegar ég sá þetta og er það, en við getum þó bætt töluverðu við. Mér gafst ekki tími til þess áðan en það væri líka alveg þess virði að skrifa inn kafla um byggðarannsóknir og skipulag vegna þess að ekki eingöngu þróuðust hlutir frekar illa megnið af 20. öldinni, af því að okkar borgir byrja að byggjast upp seint í módernismanum, heldur eigum við á tímum þar sem við þurfum að hugsa um loftslagsvernd alveg ótrúleg sóknarfæri hjá þjóð þar sem 75% hennar búa nánast í einni borg.