Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ræða nefndarálit minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar um það mál sem hér er til umfjöllunar, frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana (heimildir til bráðabirgðaráðstafana o.fl.). Undir þetta álit rita hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson framsögumaður, Viðar Eggertsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Það er kannski ekki miklu við efni álitsins að bæta en ég get ekki á mér setið að koma hér upp og ræða þessi mál í samhengi skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og varðar lagaframkvæmd og eftirlit með stjórnsýslu sjókvíaeldis á Íslandi. Eins og hv. þingmenn vita þá hefur sú skýrsla vakið umtalsverða athygli, hefur fengið vandaða umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þeirri umfjöllun mun væntanlega ljúka í næstu viku. Hví er ég að minnast á það? Það er vegna þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar er rakið hvernig við höfum byggt upp þessa atvinnugrein með ekki nógu vönduðum hætti, ekki með nógu góðu eftirliti og með lagaframkvæmd og stjórnsýslu sem er, svo vitnað sé í skýrslu Ríkisendurskoðunar, í molum og brotakennd.

Eitt af því sem hefur verið gert, þó að það sé ekki aðalumfjöllunarefni skýrslunnar nema síður sé, er einmitt að fara í svona lagareddingar eins og gert var árið 2018. Nú sat ég ekki á þingi þegar það var samþykkt en hef aðeins kynnt mér tilurð þess að það var gert og hef aldrei getað sannfærst um nauðsyn þeirrar lagasetningar. Ég hef ekki séð rökin fyrir því og þau rök sem helst hafa verið nefnd, að koma í veg fyrir sóun á verðmætum, er auðvitað mjög auðvelt að nota með mjög breiðri skírskotun þegar um þessi mál er rætt. Þess vegna verð ég að segja eins og er að eftir að úrskurður ESA féll yfir þessari lagasetningu þar sem fram kom með skýrum hætti að íslenska ríkið hefði brotið gegn EES-samningnum, þar sem innleiddar höfðu verið sérreglur sem veittu ákveðnar undanþágur frá umhverfismati, þá hefur mér þótt það einkennileg vegferð að framkvæmdarvaldið leggi svona mikla áherslu á að lögfesta gjörninginn eins og hann var 2018 eftir að hafa fengið þennan úrskurð frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Ég viðurkenni að ég skil alveg hinn pólitíska tilgang með málinu, en ef við tökum okkur alvarlega sem fylgjendur umhverfisréttar og meginreglna hans og fylgjendur þess að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda verði að gilda og halda gildi sínu og eftir því skuli farið við veitingu framkvæmdaleyfa og rekstrarleyfa þá er ekki í lagi að hanna þessar hjáleiðir. Í umræðunni um þetta frumvarp og þau nefndarálit sem fyrir liggja hefur verið farið yfir að þarna sé ein vika þar sem almenningur getur skilað inn umsögnum. Vissulega er hægt að kæra til úrskurðarnefndar bráðabirgðaleyfi sem veitt yrði þá. En er það nógu gott? Ég held að það sé spurningin sem þingmenn þurfa að svara. Er það nógu góð framkvæmd þegar við erum að leggja til grundvallar mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem þessara sem verða að standast þær gæðakröfur sem við viljum gera? Þá er ég að vísa í sjókvíaeldi í fjörðum í kringum landið.

Ég er þeirrar skoðunar að þó svo það geti mögulega verið að meiri hluti þingmanna í þessum sal nái með þessari lagasetningu að koma sér svo nálægt úrskurði ESA að það sé með einhverjum hætti hægt að segja að þetta sleppi, þá er það bara ekki nógu gott. Þá vil ég vísa aftur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi af því að hún er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, lagaframkvæmdinni og eftirlitinu. Ég held og hygg, a.m.k. ef marka má umræðuna um þau mál hér í þingsalnum, að það sé fullur vilji til þess í öllum þingflokkum að bæta úr og bæta lagaframkvæmdina. Hæstv. matvælaráðherra hefur rætt það með mjög afgerandi hætti að hún vilji bæta þessa umgjörð. Bæta þarf lagaframkvæmdina og veita fé til eftirlits, það má ekki beina lögbundnu eftirliti í samkeppnissjóði o.s.frv. Skýrslan segir okkur að það sé vond hugmynd að slá af kröfum; faglegum kröfum, kröfum til vísindalegra rannsókna, kröfum sem við gerum vegna umhverfismatsins, reglna umhverfisréttarins o.s.frv. Það kemur einfaldlega alltaf í bakið á okkur ef við vöndum ekki vinnubrögðin.

Því kem ég hér upp fyrst og fremst til að árétta stuðning þingflokks Samfylkingarinnar við þá breytingartillögu sem flutt er af minni hlutanum í þessu nefndaráliti. Til ítrekunar þá er það að mínu viti ekki nógu góð lagasetning að fara þessa leið. Hér hefur verið farið ítarlega yfir umfjöllunina í nefndinni og þau álitamál sem komið hafa til skoðunar og ég ætla að endurtaka það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hafði orð á hér þegar hann vísaði í umfjöllun hv. umhverfis- og samgöngunefndar um 889. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, þegar kemur að geymslu koldíoxíðs. Þar hefur framkvæmdarvaldið, ráðuneytið, greinilega vandað sig — það er niðurskrifað í greinargerðinni — í samskiptum við ESA til að sjá til þess að þetta sé allt í lagi. Ég er ekki sannfærð um að það hafi verið gert í þessu máli. Það kann að vera að það hafi verið gert en ég er ekki sannfærð um að svo hafi verið. Það finnst mér bagalegt af því að ég hefði haldið, þótt ekki væri nema vegna skýrslunnar frá Ríkisendurskoðun sem kom til okkar hér á hinu háa Alþingi fyrir nokkrum vikum, að það væri fullt tilefni til að vanda hér til verka með hætti sem okkur öllum þætti sómi að.