Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:24]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel mig og hv. þingmann vera sammála um mikilvægi aðkomu almennings, rétt eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á, og að þetta sé ein mikilvægasta stoð umhverfisréttarins. Eðlilega erum við að ræða þetta út frá forsendum fiskeldis og eigum ekkert að hætta að gera það, enda forsaga málsins. En horfum eitt augnablik til þess að fyrir er í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir heimild til að veita bráðabirgðaleyfi. Svo reyndist ekki vera í lögum um fiskeldi frá árinu 2018 og því kom til þessa viðbragðs, sem þetta er svo enn annað viðbragð við. Í ljósi þess að löggjöfin leggur upp með að heimild sé til þess að gefa út bráðabirgðaleyfi, telur hv. þingmaður vera til bóta að með þessu frumvarpi sem um er rætt sé verið að tryggja eða auka aðkomu almennings að ákvörðuninni? Umsagnarfresturinn er hugsanlega stuttur en ákvörðunin er með þessu færð til hlutaðeigandi stofnana eins og ég fór yfir hér áðan, Matvælastofnunar í tilfelli fiskeldis og Umhverfisstofnunar í tilfelli hollustuhátta og mengunarvarna, og er hún þá kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem er mjög mikilvægur hlekkur í aðkomu almennings þegar kemur að ákvarðanatöku í umhverfismálum.