Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir sína ötulu baráttu og þá einbeittu hugsjón að vernda hér eftir sem hingað til litlu sjávarplássin okkar og þær veiðar sem aldrei munu eyða lífríkinu í kringum landið, alveg sama þó að við myndum leyfa þeim að veiða aðeins meira á krókana en raun ber vitni. Þetta er nefnilega athyglisvert og svolítið mikið öfugsnúið, og öfugmæli og öfugsnúningur í öllu þessu. Verið er að tala um mengunina, loftslagsvána og allt þetta. Þess vegna eigi að gefa einhverjum risajálkum tækifæri til að draga sig inn í kálgarðinn, hreinlega upp í hjónarúm liggur við, eins og ég sagði einhvern tíma. Í fyrsta lagi tek ég 100% undir með hv. þingmanni að auðvitað þurfa að liggja mun öflugri rannsóknir að baki. Það sem gerist er að kóralar og annað slíkt, ef það er enn á lífi eftir snurvoðarbátana sem er búið að hleypa upp í fjöru, lífríkið í kringum landið þar sem þessir trukkar fá að draga uppi í fjöru — þeir munu gjörsamlega rústa botninum.

Þannig að ég segi: Áfram veginn. Við gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við sem stöndum vörð um brothættar byggðir, þessa litlu einyrkja og strandveiðisjómennina okkar látum ekki deigan síga. Í þessu tilviki er þetta eyðilegging. Í mínum huga er það algerlega svo. Það er öfugsnúningur að reyna að réttlæta þetta út á loftslagsvá á sama tíma og botninn er eyðilagður alveg upp á strönd.