Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:27]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Förum aðeins út í hvatana sem eru í þessu frumvarpi, en hv. þingmaður kom inn á að þeir væru hugsanlega ekki nægir. Það má draga það fram í umræðunni að það er viss hvati að geta farið — ég veit að hv. þingmaður þekkir það mun betur en eiginlega allir aðrir þingmenn hvernig þetta snýr að sprotafyrirtækjum — og sótt um styrki, græna styrki o.s.frv. þegar menn eru í þessu þróunarferli sínu. Ég hef grun um að þegar búið verður að taka skrefið og einn smábátur verður kominn á flot sem gengur fyrir rafmagni þá verði ansi margir fljótir að koma til. Það er vissulega verulegur sparnaður af því að leggja af notkun jarðefnaeldsneytis. Eyðslutölur eru töluverðar og við höfum svo sem fengið það inn í atvinnuveganefnd í tengslum við önnur mál þar sem menn hafa verið að ræða um eldsneytismagn per kíló á strandveiðum, sem er þó töluvert. Ég hallast nú að því að við getum séð þetta fyrir okkur en tek heils hugar undir með hv. þingmanni að við þurfum að taka okkur verulega á þegar kemur að innviðunum. Í sumum höfnum eru þetta margir tugir báta sem koma inn á kvöldin og þarf að setja þá alla í samband. Það verður mikið verkefni (Forseti hringir.) en það er verið að horfa til rafvæðingar hafna o.s.frv. Því verðum við að taka skrefið og ég tel þetta skref sem hæstv. matvælaráðherra tekur vera gott fyrsta skref.