Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta.

[13:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður sleppti honum í seinni fyrirspurn og ítreka það að hæstv. heilbrigðisráðherra vinnur að tillögum vegna ópíóíðafaraldursins sem snúast ekki bara um að tryggja betur aðgengi að nauðsynlegri meðferð heldur snúast líka um að samræma betur verklag lögregluyfirvalda og heilbrigðiskerfisins þegar kemur að slíkum tilfellum. Við þurfum líka að mínu viti nákvæmlega að skoða það sem ég nefndi hér áðan varðandi fræðslu og forvarnir því það að breyta hegningarlögum er eitt, eins og hér hefur verið rætt, en við þurfum líka að hafa í huga að ræða hvernig við tryggjum það að við náum sama árangri og við náðum á sínum tíma með svokölluðu íslensku módeli þegar kom að unglingadrykkju, hvernig við tryggjum það að fræðsla og forvarnir beri árangur í þessum málum því að við erum að sjá skelfilegar fréttir berast af ungu fólki sem hefur orðið ópíóíðum að bráð. Hv. þingmaður spyr: Hvað stendur í vegi? Ég vil ekki nálgast það þannig. (Forseti hringir.) Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, í þessu máli þarf að vanda til verka og ég tel að hæstv. heilbrigðisráðherra sé að gera það.