Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, tíminn líður hratt í ræðustól Alþingis og ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr: Er fólk að tala saman? Að sjálfsögðu. Í síðustu viku fundaði þjóðhagsráð, endurnýjað þjóðhagsráð sem núverandi ríkisstjórn kom á, sem fjallar einmitt um nákvæmlega þetta, efnahagslegan og félagslegan stöðugleika, þar sem mættu forsvarsmenn heildarsamtaka á vinnumarkaði, þar sem Seðlabankinn mætti, sveitarfélögin. Þar var farið yfir þessa stöðu og hvað er unnt að gera í henni. Ég vísa því að sjálfsögðu á bug þegar því er haldið fram að hér sé ekkert verið að gera. Þar nægir auðvitað að nefna þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að tryggja hinn félagslega stöðugleika og það höfum við gert með því að standa vörð um viðkvæmustu hópana, t.d. örorkulífeyrisþega, en líka með þeim markvissu aðgerðum sem voru kynntar í tengslum við síðustu kjarasamninga, um húsnæðisstuðning og aukinn stuðning við barnafjölskyldur. Gleymum því ekki að um síðustu áramót kynntum við kerfisbreytingar á barnabótakerfinu til að styðja enn betur við barnafólk í landinu. Við lögðum hins vegar fram fjármálaáætlun þar sem er verið að boða aukna tekjuöflun, m.a. af breiðu bökunum sem hv. þingmaður hefur nefnt og ég þykist vita að hún sé sammála mér um, hvort sem það er fiskeldið, veiðigjöldin eða ferðaþjónustan, í tilfelli gistináttaskatts og sérstaks gjalds á skemmtiferðaskip. Við erum að leggja til viðbótarálag á atvinnulífið í landinu til að standa með okkur í gegnum þetta. En við erum líka að boða hagræðingu, 2% aðhald almennt í kerfinu, viðbótaraðhald á stjórnkerfið en líka sértækar aðgerðir upp á milljarða króna þannig að fjármálaáætlunin talar inn í það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég vek athygli á því að þarna þarf auðvitað allt að koma saman og Seðlabankinn ber höfuðábyrgð. (Forseti hringir.) En að halda því fram að stjórnvöld séu ekki að skila sínu — ég vísa því einfaldlega á bug.