Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Áætlunin er algerlega skýr. Áætlunin snýst um aukið aðhald í ríkisfjármálum. Áætlunin snýst um aukna tekjuöflun nákvæmlega þar sem fólk er aflögufært og á það hefur verið bent hér þegar við erum að benda á þá aðila sem við boðum auknar álögur á. Við erum hins vegar ekki að fara að fórna þeim árangri sem hefur náðst í að byggja upp heilbrigðiskerfi og ákveðna þætti velferðarkerfisins, hvort sem það er húsnæðisstuðningurinn, sem hafði staðið í stað árum saman þegar við tókum við, eða barnabótakerfið, sem á sama tíma hefur verið stóreflt. Við erum ekki að fara að fórna þeim árangri. Við erum vissulega að hægja á tilteknum fjárfestingum en við erum t.d. ekki að fara að hætta við fjárfestingu í uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. (Gripið fram í.) Því er þetta plan algerlega skýrt og liggur fyrir. Við eigum hins vegar að spyrja okkur — þessi verðbólga er á breiðum grunni. Hv. þingmaður nefnir matvörugáttina sem ég vonast til að opna fyrr en síðar. (Forseti hringir.) Það er verkefni sem er unnið með aðilum vinnumarkaðarins og hefði svo sannarlega mátt ganga hraðar. En horfum t.d. á tölurnar á dagvörumarkaði. (Forseti hringir.) Þar vakna vissulega spurningar hjá mér og er greinilega þörf á auknu aðhaldi í verðlagsmálum.