Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[14:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að taka hér upp málefni almannatryggingakerfisins sem eru eðli máls samkvæmt tryggingar þeirra sem ekki geta aflað sér annarra tekna og hafa verið þannig byggðar upp alllengi að aðrar tekjur skerði þessar tekjur samkvæmt ákveðnum reglum. Við höfum rætt það hvernig nákvæmlega þær tekjuskerðingar eigi að vera. Sumum finnst ekki að þær eigi að vera neinar, aðrir segja að þær eigi að vera til jöfnunar í kerfinu. Síðan þegar kemur að sköttum sem hv. þingmaður dregur hér upp vil ég bara minna hv. þingmann á að þessi ríkisstjórn fór þá leið að lækka sérstaklega skatta á hina tekjulægstu, sem m.a. skilaði sér núna um áramótin, og vil minna á breytingarnar sem við gerðum á skattkerfinu árið 2019 þegar við innleiddum bæði þrepaskipt skattkerfi og breyttum því þannig að persónuafsláttur og þrepamörk tækju breytingum í samræmi við verðlag og langtímaframleiðni. Það hefur t.d. þau áhrif að lækka tekjuskatta um 6 milljarða kr. á þessu ári, 6 milljarða kr., sem nýtist best hinum tekjulægstu. Og þá er ég ekki byrjuð að tala um þá fjármuni sem við höfum sett í það að draga úr skerðingunum sem ég nefndi hér áðan, sem við erum eðli máls samkvæmt ekki öll sammála um í þessum sal hversu miklar eigi að vera en eru vissulega hluti af kerfinu og hafa gegnt ákveðnu jöfnunarhlutverki. Nú vil ég minna hv. þingmann á það að hér er búið að boða í fjármálaáætlun verulega mikla fjárfestingu í þessu kerfi. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur boðað breytingar sem er ætlað að gera það sem ég hygg nú að við hv. þingmaður séum sammála um, gera breytingar til einföldunar, gera kerfið gagnsærra og réttlátara því þegar við ræðum skerðingar þá getum við hv. þingmaður verið sammála um að þær eru of miklar, þær eru of flóknar og of ógagnsæjar og þjóna þar af leiðandi ekki sanngirnissjónarmiðum.