Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við hv. þingmaður höfum rætt þetta allnokkrum sinnum. Það er gott, því að þetta er stórmál. En ég hlýt að ítreka það sem ég sagði hér áðan og hef raunar sagt nokkrum sinnum áður: Já, við erum einmitt að lækka skatta á tekjulægstu hópana. Af hverju erum við að gera það? Af því að það er réttlátt. Nú erum við að boða stórfelldar breytingar á þessu kerfi sem nema 16,5 milljörðum á ársgrundvelli þegar þær verða komnar til framkvæmda, sem snúast m.a. um að ekki bara bæta afkomu þessa hóps heldur líka að skapa kerfi sem hvetur til þess að fólk geti mögulega sinnt einhvers konar hlutastörfum ef það hefur getu til. Við miðum þá við að fólk geti sinnt því sem það hefur getu til en enginn sé þvingaður til nokkurs hlutar sem hann hefur ekki getu til. Þessar breytingar snúast um það, eins og ég sagði áðan, að gera þetta kerfi betra sem er orðið stagbætt og hefur verið plástrað í gegnum tíðina vegna þess að erfiðlega hefur gengið að ná fram heildarendurskoðun. Mikið sem ég vona að við náum sátt á Alþingi um þessa breytingu sem ég trúi að eigi eftir að verða til mikilla hagsbóta fyrir þennan viðkvæma hóp.