Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

matvælaöryggi og stuðningur við landbúnað.

[14:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það séu einmitt tækifæri fyrir þingið til að marka stefnuna í þessu og í raun og veru fela framkvæmdarvaldinu að taka málin áfram. Það er nefnilega verið að gera ótrúlega margt spennandi. Eitt af þeim verkefnum sem vert er að fylgjast með er Loftslagsvænn landbúnaður, því að við höfum líka verið að ræða hvernig við drögum úr losun frá innlendum landbúnaði á sama tíma og við viljum tryggja að við séum í auknum mæli sjálfum okkur nóg um framleiðslu matvæla. Þar eru frábærir hlutir að gerast sem eru kannski ekki nægjanlega uppi á borðum fyrir almenning, ekki síst vegna merkinganna sem ég leyfi mér að nefna aftur.

Síðan er auðvitað stóra spurningin sem Alþingi þarf að ræða í tengslum við landbúnaðarstefnu, sem er auðvitað grundvallarforsendan fyrir viðgangi íslensks landbúnaðar, að afurðaverðið dekki framleiðslukostnaðinn. Það er ekki staðan í dag, sem er ástæðan fyrir þessari bágu stöðu bænda víða um land en snýst bara um þá eðlilegu kröfu bænda að lifa í sama efnahagslega veruleika og aðrir landsmenn. (Forseti hringir.) Því held ég að þetta sé grundvallarmál sem þarf að ræða þegar við fáum landbúnaðarstefnuna til umfjöllunar. Hún er auðvitað til umfjöllunar í nefnd og hana þarf líka að ræða hér í þingsal. (Forseti hringir.) Ég lýsi mig fúsa til þess að fylgja þeim ákvörðunum eftir sem þar verða teknar, í samráði við hæstv. matvælaráðherra og aðra ráðherra á vettvangi framkvæmdarvaldsins.