Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef oft svarað síðustu spurningu hv. þingmanns og bent á mikilvægi þess að ráðast í aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum. Öll ræða mín á fyrsta landsþingi flokksins fjallaði um þau mál en það var vegna þess að þau eru svo gott dæmi um það hvað umræðan er oft skökk og meintar lausnir rangar og ekki til þess fallnar að leysa vandann. Þessi aukna kerfisvæðing er ekki til þess fallin að leysa vandann heldur mun frekar auka hann.

Af því að hv. þingmaður nefndi orkumálin tek ég aftur dæmi af álverum. Hvaða einkunn ætli þau hefðu fengið samkvæmt þessu fyrirkomulagi? Hefði það aukið eða dregið úr líkunum á því að ráðist hefði verið í þá fjárfestingu? Svarið er augljóst. Það hefði stórkostlega dregið úr líkunum, og að öllum líkindum komið í veg fyrir að það væri séns að ráðast í fjármögnun þessara álvera. En hverju skiluðu þau? Þau hafa skilað gífurlegum sparnaði í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir heiminn. Eins og þekkt er myndi ekkert draga úr framleiðslunni þó að hún flyttist annað, eins og við höfum séð gerast í Bandaríkjunum og í Evrópu. Álverin hafa einfaldlega verið flutt til Kína eins og svo mörg önnur framleiðsla af því að menn eru að hugsa um bókhaldið heima — að láta þetta líta vel út, fiffa loftslagsbókhald heimsins fyrir eigin ríki. En framleiðslan flyst annað þar sem losunin er oft miklu meiri.

Að leggja þessar kvaðir á atvinnulífið á Íslandi og þann gríðarlega kostnað sem óhjákvæmilega mun fylgja þessu, og koma í veg fyrir að verði af ýmsum hagkvæmum fjárfestingarkostum, það er ekki gott fyrir samfélagið.