Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn.

398. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn. Nokkuð er um liðið frá því að nefndin lauk umfjöllun sínum um þessa skýrslu og náði saman um þetta álit sem hér má finna á þskj. 437, það var 10. október 2022. En málið er komið á dagskrá þingfundar og því ástæða til að rekja í stuttu máli umfjöllun nefndarinnar um þessa skýrslu.

Eins og fólk almennt veit var Landeyjahöfn opnuð formlega í júlí 2010 og strax eftir fyrsta rekstrarár hafnarinnar kom í ljós að það þurfti að ráðast í miklar dýpkunarframkvæmdir vegna sandburðar inn í höfnina. Var það heldur bagalegt þar sem um nýja höfn var að ræða en einnig lá fyrir að Herjólfur, sá þriðji, held ég, var í raun of stór fyrir hafnargerðina. Úr varð að ráðist var í dýpkunarframkvæmdir, svokallaða viðhaldsdýpkun, en allar áætlanir um þær framkvæmdir og um rekstur Landeyjahafnar reyndust mjög vanáætlaðar og þar munar að sjálfsögðu mest um þessar dýpkunarframkvæmdir, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var fjallað um málið og fengnir gestir fyrir nefndina, auðvitað frá Ríkisendurskoðun en einnig frá innviðaráðuneyti, auk forstjóra Vegagerðarinnar og bæjarstjórans í Vestmannaeyjabæ sem lýstu málið upp frá sínum sjónarhóli öll saman. Eins og áður sagði er það mat Ríkisendurskoðunar að áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hafi reynst vanáætlaðar og munar þar mestu um stóraukinn kostnað vegna þessarar viðhaldsdýpkunar. Fyrir nefndinni kom fram að forsendur hafi að einhverju leyti breyst með gosi í Eyjafjallajökli og hærri ölduhæð en áður hafi þekkst. Í skýrslunni kemur einnig fram að aurburður hafi minnkað mjög frá því að höfnin var opnuð. Í skýrslunni kemur fram að kostnaður vegna viðhaldsdýpkunar Landeyjahafnar hafi ekki verið færður sem rekstrarkostnaður heldur sem fjárfestingarkostnaðar hafnarinnar þar sem fjárveitingar til dýpkunarinnar koma undir fjárfestingarlið í fjárlögum. Þetta gagnrýndi Ríkisendurskoðun og benti á að þann kostnað, þ.e. viðhaldsdýpkunarkostnaðinn, þyrfti að færa sem rekstrarkostnað. Fyrir nefndinni kom fram að dýpkun hafna sé almennt bókfærð sem fjárfestingarkostnaður þar sem dýpkunarframkvæmdir hafi fremur einkenni verklegra framkvæmda en þær sem fela í sér ákveðnar endurbætur á höfn. En innviðaráðuneytið og Vegagerðin tóku undir ábendingar Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar og nefndin telur rétt að kostnaður við dýpkunarframkvæmdir verði framvegis færður sem rekstrarkostnaður í bókhaldi Vegagerðarinnar.

Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að ráðist sé í heildstæða úttekt á Landeyjahöfn svo fá megi úr því skorið hvað raunverulegar endurbætur kosta og hvort fýsilegt sé að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að bæta nýtingu hafnarinnar í stað þess að kosta miklu til viðhaldsdýpkunar á hverju ári. Árið 2020 var framkvæmd óháð úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við þingsályktun nr. 12/150. Á grundvelli þeirrar úttektar fól innviðaráðuneyti Vegagerðinni að vinna sérstaka rannsókn á áætluninni vegna verkefnisins. Fyrir nefndinni kom fram að stefnt sé að því að ljúka gerð rannsóknaráætlunarinnar fyrir lok ársins 2022. Og það minnir mig á það, og ég bið hv. þingmenn að muna það með mér, að við þurfum að ganga eftir því í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin tekur undir sjónarmið Vegagerðarinnar um að vinnan þurfi að vera hnitmiðuð og beinir því til innviðaráðuneytis og Vegagerðar að vandað verði vel til verka, enda ljóst að margar áætlanagerðir í tengslum við Landeyjahöfn hafa ekki reynst nægilega ígrundaðar.

Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við undirbúning Vegagerðarinnar á kaupum og fyrirhugaðri uppsetningu á botndælubúnaði. Í skýrslunni kemur fram að Vegagerðin hefði þurft að ígrunda betur kaup á botndælubúnaðinum. Fljótlega eftir komu búnaðarins til landsins hafi komið í ljós að afköst hans hefðu verið ofmetin. Þá var ekki tekið tillit til tímans sem færi í að koma búnaðinum fyrir við hverja dælingu en ekki væri hægt að geyma búnaðinn ásamt krana út á garðsendum vegna veðurálags og ágangs sjávar í Landeyjahöfn.

Í skýrslunni og fyrir nefndinni benti Vegagerðin á að kaupin á botndælubúnaði hefðu verið hluti af stærra verkefni sem miðaði að nauðsynlegum endurbótum á Landeyjahöfn. Markmiðið með endurbótunum var að auka öryggi í höfninni og gera nýjum Herjólfi kleift að sigla oftar til Landeyjahafnar en gamli Herjólfur hafði gert.

Ljóst er að kaup og uppsetning á botndælubúnaði var hluti af stærra verkefni sem miðaði að því að auka öryggi Landeyjahafnar og að greiða fyrir siglingum Herjólfs. Þó að botndælubúnaðurinn hafi ekki reynst sem skyldi hafi margt annað komið að gagni og ýmsar framkvæmdir verkefnisins muni nýtast til frambúðar. Að mati nefndarinnar verður þó ekki litið fram hjá því að um umtalsverða fjárfestingu var að ræða en búnaðurinn ásamt fylgihlutum var keyptur fyrir tæpar 100 millj. kr. Nefndin tekur því undir þá ábendingu Ríkisendurskoðunar að vanda verði betur til undirbúnings slíkra verka.

Að öðru leyti tekur hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undir þær ábendingar sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þetta álit var undirritað 10. október 2022 og undir það rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Sigmar Guðmundsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Hildur Sverrisdóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir.