Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn.

398. mál
[17:35]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Allt frá því að Landeyjahöfn var opnuð með formlegum hætti árið 2010 hefur rekstur hennar gengið brösuglega. Þessi skýrsla sem við ræðum hér í dag staðfestir það sem allir hafa vitað um árabil, þetta hefur verið ferð án fyrirheits til mikils skaða fyrir þá sem þurfa á öflugum og öruggum samgöngum að halda milli lands og Eyja. Það virðist sem allar áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hafi brugðist. Þar hafa í engu verið náð utan um þá viðhaldsdýpkunarþörf sem síðar kom í ljós. Einhverra hluta vegna hefði maður talið að færustu sérfræðingar næðu að gera sér grein fyrir þeim mikla aur og sandburði sem bærist inn í höfnina. Ríkisendurskoðandi hefur í þessari skýrslu staðfest að svo var ekki og setur fram þrjár tillögur á grundvelli úttektarinnar til úrbóta. Fjalla þær um að færa beri kostnað við viðhaldsdýpkun sem rekstrarkostnað Landeyjahafnar, að ráðast þurfi í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum og að vanda þurfi undirbúning kostnaðarsamra fjárfestinga.

Ég verð, virðulegur forseti, að segja að mér finnst það kúnstugt að dýpkunarframkvæmdir sem gera í raun ekkert annað en að halda í horfinu skuli hafa verið færðar sem fjárfesting en ekki sem rekstur. Þarna er verið að færa til eignar eitthvað sem í raun er ekki eign og hefur aldrei verið eign og því hlýtur þessi ábending ríkisendurskoðanda að vera löngu tímabær og hlýtur því að verða að veruleika. Annað væri í raun fásinna.

Tillaga tvö fjallar um að ráðast þurfi í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum og hún er einnig löngu tímabær. Það er ekki hægt að bjóða Eyjamönnum upp á þessa stöðu sem er að höfnin er oft ónothæf um lengri tíma og þess vegna þurfi ítrekað að sigla margra tíma siglingu til Þorlákshafnar en sú siglingaleið átti í raun að leggjast af þegar Landeyjahöfn var opnuð og nýr Herjólfur var keyptur. Þarna eru m.a. gerðar athugasemdir við kaup Vegagerðarinnar á svokölluðum botndælubúnaði sem kostaði tæpar 100 milljónir og átti að leysa vandamál hafnarinnar. Það er greinilegt samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar að um verulega ofáætlun var að ræða þegar lagt var mat á afkastagetu þessa botndælubúnaðar. Vegagerðin vísaði til þess að um hefði verið að ræða hluta af stærra verkefni sem átti að bæta Landeyjahöfn en það fæst ekki séð að slíkt verkefni hafi í raun litið dagsins ljós. Þess vegna sitjum við nú uppi með höfn sem getur eingöngu þjónað Vestmannaeyjum hluta úr ári. Það kallar einnig á annars konar umræðu um öryggi þeirra sem þar búa. Íbúar Vestmannaeyja þurfa að geta gengið að því vísu, rétt eins og flestir íbúar þessa lands, að samgönguleiðir séu opnar og nothæfar þegar fólk þarf á þeim að halda, sérstaklega þegar um er að ræða neyðartilvik þegar tíminn getur ráðið því hvort fólk fái lífsnauðsynlega þjónustu.

Fyrir utan vonda stöðu Herjólfs eru samgöngur til Eyja ótryggar að öðru leyti. Það er einungis flogið tvisvar í viku til Eyja, sem er auðvitað óboðlegt. Það er heldur engin trygging fyrir því að þessum samgöngum verði haldið áfram. Við hljótum að gera þá kröfu fyrir hönd þeirra sem búa í Eyjum að öryggi þeirra sé tryggt. Um það hefur t.d. verið rætt að staðsetja sjúkraþyrlu í Vestmannaeyjum til að hægt væri að flytja sjúklinga á Landspítalann með stuttum fyrirvara. Þá hugmynd ætti að skoða mjög alvarlega.

En því miður er það ekki bara starfsemi Landeyjahafnar eða flugið sem eru í ólestri, allir innviðir sem samfélagið treystir á, eins og rafmagn og vatn, eru ótryggir. Það getur ekki talið talist ásættanlegt fyrir 4.500 manna byggð að þannig sé í pottinn búið.

Virðulegur forseti. Þriðja tillaga Ríkisendurskoðunar fjallar um að vanda þurfi undirbúning kostnaðarsamra fjárfestinga. Maður hefði nú haldið að þannig væri það í ríkisrekstri. Það liggur hins vegar fyrir að oft hefur verið farið af stað án þess að undirbúningur hafi verið nægur og fyrirliggjandi fjárhagsáætlanir því fokið út í buskann. Það ætti því að vera keppikefli ríkisins og einnig sveitarfélaganna að leggja fram vandaðar og nákvæmar áætlanir. Það er hins vegar greinilegt að ríkisendurskoðandi metur það svo að oft geti verið misbrestur á því og þess vegna setji hann fram þessa ábendingu.

Í sambandi við þessa þriðju tillögu er rétt að minna á það að árið 2018 var samþykkt hér þingsályktun frá þáverandi þingmanni Viðreisnar, Jóni Steindóri Valdimarssyni, um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Þar var fjármála- og efnahagsráðherra falið að útfæra stefnumörkun með það að markmiði að draga úr sóun í opinberum fjárfestingum og stuðla að því að framkvæmdir standist áætlanir allt frá hugmyndastigi og út ætlaðan líftíma þeirra. Í henni var ráðherra líka falið að koma á formlegum samstarfsvettvangi stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags til að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði opinberra fjárfestinga. Lítið virðist hins vegar hafa gerst. Af hverju nefni ég þetta hér? Jú, því samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar var áætlað að kostnaður við dýpkun Landeyjahafnar yrði um 60 millj. kr. á ári á verðlagi ársins 2008, en reyndin síðastliðin ár hefur verið frá 227 millj. kr. upp í 625 millj. kr. á ári frá 2011–2020. Samanlagður kostnaður við viðhaldsdýpkun á tímabilinu 2011–2020 er um 3,7 milljarðar kr.

Virðulegi forseti. Það er vissulega auðvelt að vera vitur eftir á en með betra utanumhaldi um opinberar fjárfestingar, eins og við í Viðreisn höfum barist fyrir, og með lærdómnum úr þessari skýrslu þá gætum við kannski einn daginn verið vitur fyrir fram. Það er stóra markmiðið, ekki bara að greina mistökin heldur að læra af þeim, læra að gera áætlanir til langs tíma sem eru raunhæfar og hægt að fylgja eftir, velja þá kosti sem skilar samfélaginu mestum ábata en ekki kostina sem eru ódýrastir á fyrsta degi en dýrastir yfir líftíma þeirra. Inn í það mat verðum við að taka þjónustuna við íbúana. Hvað borga Eyjamenn t.d. fyrir óhagræðið fyrir mislangar ferðir til lands eða ferðir sem falla niður með engum fyrirvara eða fyrir áhrifin af samgöngubresti á öryggi þeirra og heilsu? Á þessum samfélagslega kostnaði er ekki snert í skýrslu Ríkisendurskoðunar enda snýr hún aðeins að framkvæmda- og rekstrarkostnaði.

Ég vil því hvetja hæstv. innviðaráðherra, sem ber ábyrgð á rekstri hafnarinnar, til að nýta þetta tækifæri og láta framkvæma heildstæða kostnaðar- og ábatagreiningu á samgöngumálum til og frá Vestmannaeyjum með framtíðarlausn í huga.