Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

Störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Árið 2019 fékk borgarstjórinn í Reykjavík hæstv. innviðaráðherra til að samþykkja það að flytja Reykjavíkurflugvöll að Krýsuvíkureldstöðinni en taldi sig þó hafa fengið það fyrir að í millitíðinni yrði á engan hátt skert rekstraröryggi og flugöryggi vallarins. Eftir að eldsumbrot hófust vildi borgin fara að drífa í því að byggja þarna engu að síður en þá sagði hæstv. ráðherra í viðtali við Kristján Má Unnarsson að Reykjavíkurborg fengi ekki flugvallarland í Skerjafirði til íbúðabygginga meðan annar jafn góður eða betri kostur undir flugvöll væri ekki upp byggður. Hæstv. ráðherra sagði að meðan annar kostur, jafn góður eða betri, væri ekki uppbyggður fælist samkomulagið í því að þessi völlur hér sem við stöndum á ætti að vera í óbreyttri mynd rekstrarlega og öryggislega. Hæstv. ráðherra sagði reyndar að hann væri orðinn leiður á að slá á puttana á borginni hvað þetta varðaði, en hafi hann einhvern tímann gert það er hann hættur því núna og búinn að afhenda borgarstjórunum prikið aftur.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra út í þetta og fleiri svikin loforð ráðherra ríkisstjórnar hennar en hún taldi að ég væri bara að tala um Framsóknarvandamál svo ekki er von á mikilli aðstoð frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Hins vegar hafa 14 oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum og stöku þingmenn vaknað til lífsins og bent á að þarna sé verið að fara gegn loforðum. En hæstv. innviðaráðherra svaraði því í morgun með því að saka þá hina sömu um óheilindi með því að benda á að hann væri ekki að standa við það sem hann hefði lofað. Og ég spyr núna, hæstv. forseti: Hvað ætla þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að gera? Hvernig ætla þeir að bregðast við því? Það þýðir ekkert að koma síðar og segjast ekkert hafa getað gert (Forseti hringir.) ef þeir láta það viðgangast núna að farið verði að grafa undan flugvellinum og þrengja enn að honum.