Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

Störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Í fréttaskýringarþættinum Kveik í gærkvöldi fengum við enn og aftur að heyra að dómsmálaráðherra hefur ákveðið að selja flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Vél sem hefur sannað sig við leit og björgun á Íslandi, vél sem hefur veitt krítískar, vísindalegar upplýsingar um eldgos og hættu af þeim, vél sem staðið hefur skip að ólöglegum veiðum í landhelginni, vél sem hefur fylgst með ferðum rússneskra njósnaskipa í nágrenni Íslands, vél sem hefur bjargað lífum þúsunda fólks á flótta. Allt þetta ætlar ráðherra að ná að framkvæma með minni flugvél sem myndi kosta stórfé að kaupa og útbúa vel. Afsökun ráðherra er sú að til þess að halda vélinni í rekstri í dag þurfi að leigja hana út til landamærastofnunar Evrópu, Frontex, langtímum saman, allt af því að flokkur ráðherra vill ekki hækka veiðigjöld svo þau standi a.m.k. undir kostnaði við eftirlit og rannsóknir.

Þetta er í annað sinn á þessu þingi sem við þingmenn fáum að heyra að selja eigi TF-SIF. Síðast kom hér á þingi fram einskær vilji þingheims, þvert á pólitíska flokka, til þess að standa vörð um þetta mikilvæga tæki. Er það von mín að við hv. þingmenn stöndum saman gegn ruglinu í dómsmálaráðherra þegar kemur að þessari flugvél.